Leggja til „evrópskan lífeyri“

AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt fram tillögu um að ríkisborgurum aðildarríkja sambandsins verði gert kleift að safna í einn lífeyrissjóð, sama hvar þeir búa í álfunni. Hugmyndin er sú að auðvelda þeim lífið sem ferðast mikið um.

Til að gera lífeyrisúrræðið meira aðlaðandi munu yfirvöld í Brussel mælast til þess að ríkisstjórnir veiti bestu mögulegu kjör þegar kemur að skattheimtu. Vonir stóðu til að samkomulag myndi nást um samræmda skattlagningu en það hafðist ekki.

Þeir sem koma til með að bjóða upp á hið nýja evrópska lífeyrisúrræði munu þurfa að sæta kröfum um verulegt gegnsæi þegar kemur að gjaldtöku.

Framkvæmdastjórnin segist vonast til þess að úrræðið muni hvetja fólk á vinnumarkaði, sérstaklega þá sem ferðast mikið milli landa, til að spara yfir ævina. Sem stendur greiða aðeins 27% Evrópubúa á aldrinum 25-59 ára í lífeyrissjóð. 

Það er óljóst hvort úrræðið mun standa Bretum til boða í kjölfar Brexit en báðir aðilar hafa heitið því að standa vörð um lífeyrishagsmuni Breta í Evrópu annars vegar og evrópskra ríkisborgara í Bretlandi hins vegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert