Stjórnvöld greiða fyrir þungunarrof kvenna frá Norður-Írlandi

Fjármálaráðherrann Philip Hammond tilkynnti í dag að ríkisstjórnin myndi fjármagna …
Fjármálaráðherrann Philip Hammond tilkynnti í dag að ríkisstjórnin myndi fjármagna þungunarrof kvenna frá Norður-Írlandi innan breska heilbrigðiskerfisins. AFP

Breska ríkisstjórnin hefur ákveðið að hætta að rukka konur frá Norður-Írlandi fyrir þungunarrof innan opinbera heilbrigðiskerfisins en tugir þingmanna Íhaldsflokksins eru sagðir hafa hótað því að greiða atkvæði með samhljóðandi tillögu Verkamannaflokksins.

Lög um þungunarrof eru afar ströng á Norður-Írlandi og ómögulegt að fá þjónustuna nema líf móðurinnar sé í bráðri hættu. Því ferðast margar konur þaðan til annarra hluta Bretlands til að sækja þjónustuna en hafa þurft að greiða um 900 pund fyrir, auk ferðakostnaðar.

Dómstólar á Norður-Írlandi hafa fjallað um þungunarrof á síðustu misserum en áfrýjunardómstóllinn í Belfast hefur neitað breytingum á lögum til að gera konum kleift að rjúfa þungun eftir nauðgun eða þegar um er að ræða stórvægilega fósturgalla.

Stella Creasy, þingmaður Verkamannaflokksins, lagði fram tillöguna um greiðsluþátttöku ríkisins …
Stella Creasy, þingmaður Verkamannaflokksins, lagði fram tillöguna um greiðsluþátttöku ríkisins og naut stuðnings tuga þingmanna Íhaldsflokksins. Wikipedia/Rwendland

Undirréttur hafði áður komist að því að bann við þungunarrofi, eða fóstureyðingum, í umræddum aðstæðum bryti gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt Guardian höfðu þingmenn lýst áhyggjum af því að Íhaldsflokkurinn myndi veigra sér við að breyta greiðsluþátttökunni vegna samstarfs síns við DUP, sem er á móti fóstureyðingum.

Ian Paisley yngri, einn þingmanna flokksins, sagði  hins vegar á þinginu í dag að um væri að ræða ákvörðun er varðaði breska heilbrigðiskerfið, NHS, en ekki yfirvöld í Belfast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert