Ók á miklum hraða í átt að fólkinu

Lögreglan gætti moskunnar í nótt.
Lögreglan gætti moskunnar í nótt. AFP

Maðurinn sem reyndi að keyra inn í hóp múslima við mosku í úthverfi Parísar, Creteil, í gærkvöldi keyrði á miklum hraða upp á gangstéttina en stöplar sem eiga að koma í veg fyrir að bílum sé lagt uppi á gangstéttinni komu í veg fyrir að hann næði að keyra á fólkið.

Leiðtogi múslima í Creteil, Karim Benaissa, segir að um árás manns sem hatar múslima sé að ræða og ekki leiki nokkur vafi á að hann hafi ætlað sér að gera árás á fólkið.

Jeppabifreiðin hafnaði á stólpum og vegtálmum á gangstéttinni fyrir utan moskuna og var henni ekið á miklum hraða af vettvangi. Hún hafnaði að lokum á umferðareyju en þaðan flúði ökumaðurinn á hlaupum. Hann var handtekinn á heimili sínu skömmu síðar. 

Húsleit var gerð á heimili mannsins en að sögn heimildarmanna AFP gaf hann afar villandi skýringar og yfirlýsingar um atvikið og hryðjuverkaárásir sem hafa verið gerðar í Frakklandi undanfarin ár. 

AFP

Maðurinn, sem er 43 ára gamall Armeni, var ekki undir áhrifum áfengis og verður honum gert að sæta geðrannsókn líkt og öllum er gert sem verða uppvísir að árásum sem þessari. 

Innanríkisráðherra Frakklands, Gerard Collomb, segir að reynt verði að komast að því hvað manninum gekk til við yfirheyrslur hjá lögreglu. Um saknæmt athæfi sé að ræða og rannsaka verði hvort hann sé sakhæfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert