35.000 skráðir í gleðigöngu Oslo Pride

35.000 manns fögnuðu fjölbreytileikanum á Oslo Pride í dag.
35.000 manns fögnuðu fjölbreytileikanum á Oslo Pride í dag. mbl.is/Atli Steinn

Hinsegin hátíðin Oslo Pride náði hámarki sínu í dag með gleðigöngu um miðborg Óslóar sem gert er ráð fyrir að 35.000 manns hafi tekið þátt í en reiknað er með að allt að 250.000 hátíðargestir leggi leið sína til Karls Jóhannsgötu og næsta nágrennis til þess að fagna fjölbreytileikanum og alþjóðlegri baráttu gegn fordómum í garð þeirra sem ekki binda endilega bagga sína sömu hnútum og allir samferðamenn.

Dagurinn í dag er þó aðeins punkturinn yfir i-ið í þéttri dagskrá sem staðið hefur frá fimmtudeginum 22. júní og er óhætt að segja að ýmissa grasa hafi kennt. Ofarlega á blaði er fyrirlestra- og pallborðsviðburðaröðin Pride House en viðburðir á hennar vegum hafa verið margir á dag alla hátíðardagana og farið fram í húsakynnum um alla borg líkt og búast mætti við á hátíð sem tileinkuð er fjölbreytileika.

Lögreglan tók að sjálfsögðu þátt í göngunni undir slagorðinu Ein …
Lögreglan tók að sjálfsögðu þátt í göngunni undir slagorðinu Ein lögregla fyrir alla. mbl.is/Atli Steinn

Hinsegin kroppar með gleraugum guðfræðinnar

Efnisskrá Pride House virðast lítil takmörk sett, en svo stiklað sé aðeins á örfáum viðburðum má þar nefna fyrirlesturinn „Hinsegin kroppar í gagnkynhneigðri guðfræði“ þar sem guðfræðingurinn Andreas Ihlang Berg ræðir um samkynhneigð í augum norsku þjóðkirkjunnar og veltir upp spurningum á borð við hvort umgjörð kirkjulegra athafna í Noregi sé algjörlega sniðin að gagnkynhneigðu samfélagi eða hvort glitti í viðurkenningu í garð hinsegin fólks á meðan kirkjunnar menn skýli sér á bak við norskan menningararf til að sú viðurkenning verði ekki algild.

Þess má geta að það var 1. febrúar árið 2017 sem norska kirkjan heimilaði fyrst prestum sínum að gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband.

Er betra að nota Glock en smokk? Lögreglan í Ósló …
Er betra að nota Glock en smokk? Lögreglan í Ósló var sýnileg og hélt uppi stífri gæslu. Þessir voru til í að pósa fyrir blaðamann ofan af Íslandi. mbl.is/Atli Steinn

„Réttindi transfólks á Trump-öld“ (Transgender rights in the age of Trump) er fyrirlestur sem Pauline Park frá Samtökum málsvara kynréttinda í New York flytur á ensku og beinir þar sjónum sínum að áhrifum embættissetu Donalds Trump á veruleika transfólks í Bandaríkjunum, framtíðarsýn og áhyggjuefnum.

Samtök hinsegin fólks í tyrkneska bænum Amed, einum helstu heimkynnum Kúrda þar í landi, standa fyrir fyrirlestrinum „Kurdish and queer“ og gera þar grein fyrir því hve á brattann er að sækja fyrir samkynhneigða Kúrda í Tyrklandi að heyja samtímis réttindabaráttu fyrir kynferðislegri tilveru sinni og lífi sínu sem ofsótt hirðingjaþjóð í Tyrklandi. Annar fyrirlestur fjallar um stöðu femínismans í samfélagi hinsegin fólks og svo mætti lengi telja.

Við þetta bætist listasýningin Pride Art með tugi viðburða að ógleymdu tónleikahaldi, drag-sýningum, bókmenntakvöldum og samkomu 50 ára og eldra hinsegin fólks auk þess sem Félag samkynhneigðra stúdenta í Ósló lét ekki sitt eftir liggja á fimmtudagskvöldið og bauð gestum og gangandi í hinsegin pöbbarölt þar sem helstu hinsegin barir og skemmtistaðir borgarinnar voru heimsóttir.

Dagskrá Oslo Pride í heild má sjá á heimasíðu hátíðarinnar.

Inni á Pride Park var líka lögga en þau Ida, …
Inni á Pride Park var líka lögga en þau Ida, Thomas, Silje og Ana gáfu gestum sleikjubrjóstsykur. mbl.is/Atli Steinn

250.000 manns í miðbæinn

„Við reiknum með 35.000 manns í gleðigönguna í ár,“ segir Fredrik Dreyer, aðalstjórnandi og skipuleggjandi Oslo Pride 2017, í samtali við mbl.is og bætir því við að 30.000 manns hafi sótt gönguna í fyrra en sá háttur er hafður á í Ósló að væntanlegir göngumenn eru beðnir að skrá sig fyrir fram til að auðvelda skipulag göngunnar og umfang löggæslu.

Þá býst Dreyer við því að allt að 250.000 gestir leggi leið sína til miðborgar Óslóar í dag enda veðurspá góð og gert ráð fyrir léttskýjuðum himni og allt að 26 gráða hita síðdegis. „Á fjórða hundrað sjálfboðaliða taka þátt í skipulagningu og framkvæmd hátíðarinnar í ár og við hefjum skipulag hverrar Oslo Pride-hátíðar árið áður,“ segir hann frá og er þakklátur öllum þeim er hafa lagt gjörva hönd á plóg til að gera svo stóra hátíð að raunveruleika.

Vidar átti pabbahelgi en lét það ekki stöðva sig.
Vidar átti pabbahelgi en lét það ekki stöðva sig. mbl.is/Atli Steinn

Enn fremur segir Dreyer frá því að sífellt fleiri erlendir aðilar sæki Oslo Pride ár hvert. Ekki sé haldið sérstakega utan um skráningar erlendra gesta í ár en í fyrra hafi gestir frá 14 löndum látið vita af sér og hafi nágrannarnir í Danmörku og Svíþjóð þar verið fjölmennastir.

„Við erum líka í góðu samstarfi við Gay Pride-hátíðirnar hjá nágrannaþjóðum okkar og samræmum okkur auðvitað þannig hvert sumar að hátíðirnar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi lendi ekki allar á sömu helginni, það væri nú frekar léleg norræn samvinna ef svo færi,“ segir Dreyer og glottir við tönn.

Hins vegar segir hann margar borgir vera í samfloti með Pride-hátíð Óslóar og nefnir þar Madrid, London og New York en skýringin sé sú að þessi lönd og fleiri tengi sig við Stonewall-hátíðina í Flórída sem ávallt er haldin síðari hluta júnímánaðar og var fyrst til þess að geta af sér hugtakið „Pride Month“ um júnímánuð.

Lasse frá Noregi og hans heittelskaði Pedro frá Brasilíu.
Lasse frá Noregi og hans heittelskaði Pedro frá Brasilíu. mbl.is/Atli Steinn

Djammað fram á nótt í Ósló

Gleðigöngu dagsins lýkur í Pride Park, sem í raun er Eidsvoll-garðurinn við byggingu Stórþingsins í miðborg Óslóar, og verður þar látlaus tónlistarhátíð til klukkan þrjú í nótt þar sem fjöldi listamanna mun leggja gjörva hönd á plóg, plötusnúðar þeyta skífum sínum, lítil bjórhátíð eiga sér stað auk þess sem fyrirtækjum og einstaklingum býðst að panta pláss og vera með bás í Pride Park til kynningar á vörum sínum en þeir sem helst virðast hafa nýtt sér þetta eru bjór- og aðrir áfengisframleiðendur.

Eftir fjölmennan dag í miðborginni og mikla gleði og góða strauma á Oslo Pride 2017 virðist stefna í ekki síðra kvöld og nótt og kannski best að slá botninn í þessar línur úr höfuðstað Óslóar með því sem hann Jon Hannes sagði í spjalli hér fyrr í dag: „Þessi dagur leyfir okkur að vera það sem við erum.“

Jon, Hans og Stian skemmtu sér vel í dag og …
Jon, Hans og Stian skemmtu sér vel í dag og kváðu Noreg hafa komist langt síðan mök karlmanna voru bönnuð með lögum allt þar til 1972. mbl.is/Atli Steinn
Gine og Jon Hannes skemmtu sér konunglega í Pride Park …
Gine og Jon Hannes skemmtu sér konunglega í Pride Park í dag. mbl.is/Atli Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert