Frans páfi styður foreldra Charlies Gards

Charlie Gard.
Charlie Gard.

Frans páfi hefur lýst yfir stuðningi við foreldra barns sem þjáist af sjaldgæfum erfðasjúkdómi og segist vonast til þess að læknar heimili þeim að annast um barnið sitt þar til yfir lýkur.

Fjallað hefur verið um málið á öllum dómstigum í Bretlandi en í síðustu viku komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að læknum væri heimilt að taka hinn 10 mánaða Charlie Gard úr öndunarvél.

Foreldrar hans hafa barist fyrir því að fá að fara með hann til Bandaríkjanna í tilraunameðferð en dómstóllinn tók undir með læknum um að Charlie þjáðist og ætti sér enga batavon.

Í yfirlýsingu frá Vatíkaninu segir að páfinn hafi fylgst með málinu og finni til með foreldrum Charlies.

„Hann biður fyrir þeim og vonar að þrá þeirra til að fylgja og annast um barn sitt þar til yfir lýkur verði ekki virt að vettugi,“ segir í yfirlýsingunni.

Great Ormond Street Hospital, þar sem Charlie hefur dvalið frá fæðingu, sendi frá sér tilkynningu á föstudag þar sem sagði að unnið væri að því með foreldrunum að undirbúa framhaldið og gefa fjölskyldunni meiri tíma saman.

Ekki hefur verið tilkynnt hvenær drengurinn verður tekinn úr öndunarvélinni, sem hann er algjörlega háður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert