Lögleiða samband þriggja

Þeir Bermudez og Rodriguez hafa verið saman í 18 ár …
Þeir Bermudez og Rodriguez hafa verið saman í 18 ár og voru fyrsta samkynhneigða parið í Kólumbíu til að hljóta lagalega viðurkenningu á sambandi sínu. AFP

Þegar Victor Hugo Prada verður boðið að kyssa brúðgumann verður hann að velja hvorn mannanna tveggja sem standa honum við hlið hann ætlar að kyssa fyrst – Manuel Bermudez eða Alejandro Rodriguez.

Þeir Prada, Bermudez og Rodriguez munu á næstunni halda upp á það að kólumbísk lög heimila samband þeirra og segir Guardian ekki ólíklegt að þetta sé fyrsta lagalega samþykki sem samband þriggja karla hefur hlotið. „Við viljum opinbera það sem er náið,“ sagði Prada í samtali við Guardian. „Við höfum enga ástæðu til að fela þetta. Við erum að leggja okkar af mörkum að sýna fram á að það eru til ólíkar gerðir ástarsambanda og ólíkar fjölskyldueiningar.“

Lögfræðingur þremenninganna segir samband þeirra þó ekki vera hjónaband samkvæmt kólumbískum lögum, sem segi hjónabandssáttmálann vera milli tveggja einstaklinga. Þess vegna hafi þeir komið fram með nýja skilgreiningu: „sérstakt erfðafjársamband“, þar sem fram komi að þremenningarnir búi saman sem fjölskylda og að þeir séu hver og einn lagalegur maki hinna. „Við erum ekki þrír vinir sem búa saman. Við erum fjölskylda – trieja,“ segir Prada og vísar til spænska orðsins yfir þrenningu sem vísar til fasts sambands milli þriggja einstaklinga.

„Við vorum þegar orðnir fjölskylda, en pappírarnir gera þetta formlegra.“

Þeir Bermudez og Rodriguez hafa verið saman í 18 ár og voru fyrsta samkynhneigða parið í Kólumbíu til að hljóta lagalega viðurkenningu á sambandi sínu árið 2000, 16 árum áður en hjónaband samkynhneigðra hlaut lagalega viðurkenningu dómstóla í landinu. Í átta af þessum 16 árum áttu þeir einnig í sambandi við Alex Esneider Zabala sem dó fyrir þremur árum úr magakrabba, Prada hefur verið hluti fjölskyldunnar sl. fjögur ár. Þegar Zabala féll frá segjast þeir hafa áttað sig á því að hversu mikið sem þeir sjálfir álitu sig vera fjölskyldu þá var lagalega hliðin allt önnur og því hafi þeir ákveðið að fara þessa leið til að leita löglegrar staðfestingar.

„Það er til fjöldi sambærilegra sambanda en þau eru flest leynileg,“ segir lögfræðingur þeirra, Germán Rincon-Perfetti, sem telur líklegt að fleiri einstaklingar í sambærilegri stöðu leiti nú lögleiðingar á sambandi sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert