Samkomulag um aukinn stuðning

AFP

Frakkar, Ítalir og Þjóðverjar hafa komist að samkomulagi um að setja sér siðareglur um hjálparstofnanir sem eru með björgunarbáta að störfum á Miðjarðarhafi.

Með reglunum er vonast til þess að hægt verði að fylgjast betur með þeim sem koma að björgun flóttafólks frá Afríku á leið til Evrópu. Ítalska strandgæslan ásamt evrópsku landamærastofnuninni (Frontex) og hjálparsamtökum gera í dag út björgunarskip sem koma flóttafólki til aðstoðar á siglingaleiðinni frá Afríku til Evrópu.

Ítölsk yfirvöld hafa þrýst á önnur ríki í Evrópu að heimila björgunarskipum að gera út frá höfnum landanna og deila þannig ábyrgðinni víðar. Frakkar hafa hins vegar hafnað þeirri beiðni og segja að með því yrði dregið úr skilvirkni aðgerða.

Innanríkisráðherra Frakklands, Gérard Collomb, telur að það hvetti fleiri flóttamenn til þess að reyna að flýja til Evrópu, að sögn eins af aðstoðarmönnum hans sem vildi ekki koma fram undir nafni.

AFP

Samtökin SOS Méditerranée, sem eru með björgunarskip að störfum á Miðjarðarhafi í samstarfi við Lækna án landsmæra (MSF), segja að það yrði einnig mjög erfitt skipulagslega séð að þvinga björgunarskipin að leggja að í höfnum annarra ríkja en Ítalíu.

Yfir 83 þúsundum hefur verið bjargað og komið til hafnar á Ítalíu það sem af er ári en 2.160 hafa látist á flóttanum frá Líbýu, samkvæmt upplýsingum frá alþjóðlegu flóttamannasamtökunum (IOM).

Innanríkisráðherrar ríkjanna þriggja áttu fund í París í gær en þeir ræddu einnig um hvernig mætti styrkja stöðu strandgæslunnar í Líbýu meðal annars fjárhagslega og með þjálfun.

Ríkin ætla að auka stuðning við Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) svo hægt verði að bæta aðbúnað í flóttamannabúðum í ríkjum Norður-Afríku. Vonir standi til að með því verði hægt að hægja á komum flóttafólks sem er að flýja fátækt og örbrigð í heimalandinu. 

Evrópusambandið hefur átt í mestu vandræðum með að standa við flóttamannastefnu sambandsins sem var samþykkt árið 2015 þar sem kveðið er á um að 160 þúsund hælisleitendur fengju skjól í ríkjunum 28 sem eru innan ESB. Með því yrði ábyrgðinni dreift en flestir flóttamenn koma til Ítalíu og Grikklands. Aðeins 20 þúsund flóttamenn hafa fengið hæli í öðrum ríkjum á meðan Ungverjaland, Pólland og Tékkland hafa neitað að standa við skuldbindingar sínar sem ríki innan ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert