Vopnum og sprengiefni stolið frá hernum

Marcelo Rebelo de Sousa, forseti Portúgals.
Marcelo Rebelo de Sousa, forseti Portúgals. AFP

Tæpri viku eftir að vopnum og sprengiefni var stolið frá vörugeymslu hersins í Portúgal er að koma í ljós hversu alvarlegur þjófnaðurinn var. BBC greinir frá.

Spænsk vefsíða hefur greint frá því hvað var tekið í úr vöruhúsinu sem staðsett er norðaustan við Lissabon, höfuðborg Portúgals. Upp komst upp þjófnaðinn 28. júní og önnur NATO-ríki voru látin vita af málinu.

Forseti landsins, Marcelo Re­belo de Sousa, hefur óskað eftir afdráttarlausri rannsókn á þjófnaðinum. Enn fremur sagði forsetinn að það ætti að rannsaka þjófnaði í öðrum NATO-ríkjum. Hann minntist þó ekki nákvæmlega á hvaða önnur lönd hann hefði í huga.

Talið er að vopnunum og sprengiefnunum hafi verið stolið í skjóli nætur á svæði þar sem öryggismyndavélar hafa verið bilaðar í meira en tvö ár.

Portúgalska varnarmálaráðuneytið sagði um leið að málið væri alvarlegt. Ekki kom þó í ljós hversu miklu var stolið fyrr en spænski miðilinn El Espanol sagðist hafa lista þess efnis undir höndum

Samkvæmt þeim hirtu þjófarnir 1.1450 riffilskotfæri, 150 handsprengjur, 44 skriðdrekasprengjur, 18 táragassprengjur og 102 tímasprengjur.

El Espanol segist hafa séð listann eftir að hann var sendur þarlendum yfirvöldum.

Portúgalski forsetinn sagði að vandlega yrði farið yfir málið. Koma ætti í veg fyrir að eitthvað svona alvarlegt gæti gerst aftur.

Fimm yfirmönnum í portúgalska hernum hefur verið vikið frá störfum á meðan málið er rannsakað. Ekki hefur verið greint frá því hvort þeir hafi átt beinan þátt í þjófnaðinum heldur er talið að hersveitir þeirra hafi átt að annast öryggisgæslu á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert