Flýja öfgar í veðri

Hitinn mun hækka. Flóð verða tíðari á sumum stöðum. Þurrkar …
Hitinn mun hækka. Flóð verða tíðari á sumum stöðum. Þurrkar á öðrum. Vestur- og Mið-Afríka munu finna hvað mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga í framtíðinni. Ljósmynd/UNICEF

Kaldhæðni örlaganna hefur komið því þannig fyrir að þjóðir þeirra landa jarðar sem minnsta ábyrgð bera á loftslagsbreytingum eru þær sem þjást mest af þeirra völdum. Þjóðir sem skilja eftir sig örsmátt kolefnisfótspor verða þær fyrstu til að finna fyrir öfgafullum veðurfarsbreytingum s.s. flóðum og þurrkum með tilheyrandi uppskerubresti, gripafelli og skorti á hreinu vatni. Allt þetta hefur svo aftur þau áhrif að fólk leggur á flótta, reynir að finna ný heimkynni þar sem hægt er að lifa betra lífi.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu UNICEF um börn á flótta í Vestur- og Mið-Afríku. Um 12 milljónir manna á þessu svæði eru á vergangi, þ.e. hafa yfirgefið heimili sín og ekki fundið sér annan samstað. Langflestir halda enn til í heimshlutanum, aðallega í löndunum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Fáir flýja til Evrópu. Þar vita þeir að borgarhliðin eru að verða rammlæst og flóttinn yfir Miðjarðarhafið kostar hundruð manna lífið á hverju ári.

Fólk sem hættir búskap flytur í borgirnar í leit að …
Fólk sem hættir búskap flytur í borgirnar í leit að betra lífi. Þar tekur þó oft ekkert betra við. Í Lagos í Nígeríu reynir fólk að bjarga sér með því að selja varning og nota til þess gula sendibíla. Mengunin getur verið gríðarleg og umferðaröngþveitið yfirgengilegt. Ljósmynd/UNICEF

Af þessum tólf milljónum eru rúmlega sjö milljónir barna. Mörg þeirra eru fylgdarlaus, hafa annaðhvort týnt foreldrum sínum eða misst þá. UNICEF hvetur stjórnvöld sem og alþjóðastofnanir til að aðstoða börnin sérstaklega og sjá til þess að þau fái aðstoð, hvort sem er á heimalandinu, á flóttanum eða á áfangastað, hver svo sem hann er. 

Meðalhitinn mun hækka um 3-4 gráður

Áhrif loftslagsbreytinga verða mest í þessum heimshluta, þ.e. í Vestur- og Mið-Afríku. Þeirra hefur þegar orðið vart en spáin til framtíðar er hrikaleg. Búist er við því að meðalhiti eigi eftir að hækka um 3-4 gráður áður en öldin er úti. Það er um helmingi meiri hækkun en annars staðar á jörðinni.

Á Sahel-svæðinu svokallaða, sem nær frá Sahara-eyðimörkinni í norðri og inn á gresjur Súdans, hafa umtalsverðar breytingar þegar átt sér stað í veðurfari. Úrkoman er til að mynda enn sveiflukenndari en áður. Íbúarnir hafa þurft að aðlagast þessum breyttu skilyrðum en þegar það dugar ekki til hafa þeir flutt sig um set. Ljóst þykir að ákveðin tegund landbúnaðar og hjarðlíf sem margar þjóðir stunda enn er á undanhaldi og oft á tíðum ekki lengur sjálfbært. 

Hafast við í fenjum við borgirnar

Í skýrslunni er reynt að rýna í þá þætti sem verða til þess að fólk leggur á flótta í Afríku. Loftslagsbreytingar eru meðal skýringa. Þegar þær hafa stofnað lífsviðurværi fólks í voða er skiljanlegt að það flytji og leiti betra lífs, ekki síst barnafólk.

Vegna þurrka á sumum svæðum og flóða á öðrum er beitiland fyrir nautgripi sumstaðar af skornum skammti og slegist er um það, í bókstaflegri merkingu. Margir hafa neyðst til að hætta búskap og flytja til borganna. Í borgunum hefst flóttafólkið við á svæðum sem eru ekki vænleg til búsetu; oft í fenjum þar sem hætta er á flóðum. 

Innviðir borganna eru heldur oft ekki upp á marga fiska og þegar þúsundir nýrra borgara streyma þangað vikulega er ljóst að þeir munu gefa sig enn frekar.

Verja þarf börn á flótta

UNICEF hvet­ur áfram stjórn­völd í Vest­ur- og Mið-Afr­íku sem og í Evr­ópu og víðar, til að grípa taf­ar­laust til aðgerða og hafa eft­ir­far­andi að leiðarljósi í sinni vinnu:

- Verja börn á flótta og far­alds­fæti, sér­stak­lega fylgd­ar­laus börn, gegn of­beldi og misneyt­ingu.

- Hætta að hneppa í varðhald þau börn sem sækja um stöðu flótta­manns eða eru á far­alds­fæti.

- Halda fjöl­skyld­um sam­an en það er sterk­asta vopnið til að tryggja ör­yggi barna, veita þarf svo fjöl­skyld­un­um laga­lega stöðu.

- Halda öll­um börn­um á flótta og far­alds­fæti í námi, og veita þeim heil­brigðisþjón­ustu sem og aðra grunnþjón­ustu.

- Þrýsta á aðgerðir til að tak­ast á við und­ir­liggj­andi or­sak­ir hinn­ar stór­felldu aukn­ing­ar flótta­manna og fólks á far­alds­fæti í heim­in­um.

- Vinna gegn út­lend­inga­h­atri, mis­mun­un og jaðar­setn­ingu minni­hluta­hópa. 

Heims­for­eldr­ar hjálpa til við all­ar þess­ar aðgerðir.

UNICEF hvet­ur enn frem­ur al­menn­ing til að láta sig málið varða og sýna börn­um á flótta sam­stöðu og stuðning. Þetta átaks­verk­efni kall­ast #AChildIsAChild og hafa hundruð þúsunda manna tekið þátt í því á sam­fé­lags­miðlum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert