Hvetur fólk til að sýna stillingu

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. AFP

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hvatti fólk til að sýna stillingu eftir fréttir sem bárust í gær þess efnis að Katalónía muni strax lýsa yfir sjálfstæði ef meirihluti styður sjálfstæði héraðsins frá Spáni í þjóðaratkvæðagreiðslu 1. október.

Til allra Katalóníumanna, til allra Spánverja, vil ég beina þeim orðum að þeir geta treyst framtíðinni, þar sem einræðislegar sjálfsblekkingar... munu aldrei yfirbuga ró og samkennd okkar lýðræðisríkis,“ sagði Rajoy á útifundi í Madríd í dag.

Katalónía er eitt af ríkustu héruðum Spánar en þar búa um 7,5 milljónir manna. Car­les Puig­demont, leiðtogi Katalón­íu sagði í gær að héraðið myndi lýsa yfir sjálfstæði strax, ef niðurstaða fyrirhugaðrar atkvæðagreiðslu yrði jákvæð.

Kjósendur munu svara spurningunni: „Vilt þú að Katalón­ía verði sjálf­stætt lýðveldi?“ Spænsk stjórn­völd eru mót­fall­inn at­kvæðagreiðslunni en aðskilnaðarsinn­ar í Katalón­íu hafa lengi haldið því fram að þeir ættu að slíta sig frá Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert