„Mikil ógnun og ögrun“

Moon og Angela Merkel í Berlín í dag.
Moon og Angela Merkel í Berlín í dag. AFP

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, kallar eftir hörðum refsiaðgerðum gegn grönnum sínum í Norður-Kóreu eftir eldflaugaskot þeirra aðfaranótt þriðjudags.

Moon fordæmdi ráðamenn í Pyongyang fyrir „mikla ögrun“.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að eldflaugaskotið væri ógn við heimsbyggðina. Flauginni var skotið upp skammt frá Pang­hyon-flug­vell­in­um og endaði hún för sína í Japanshafi 37 mínútum síðar. 

„Þetta er mikil ógnun og ögrun. Norður-Kórea ætti að hætta þessu nú þegar og þess vegna skoðum við alla möguleika varðandi refsiaðgerðir,“ sagði Moon, áður en hann ræddi við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í Berlín.

Banda­rísk­ir emb­ætt­is­menn telja að Norður-Kór­eu­menn geti skotið eld­flaug til Alaska. Sér­fræðing­ar telja hins veg­ar hæpið að eld­flaug­in geti hitt skot­mark af mik­illi ná­kvæmni. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman á neyðarfundi vegna málsins síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert