Ómögulegt að flytja Gard til Ítalíu

Charlie Gard.
Charlie Gard.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, telur að það væri ómögulegt að flytja Charlie Gard, tíu mánaða dauðvona dreng, á sjúkrahúsið í Vatíkaninu.

Páfinn lýsti yfir stuðningi við Gard á mánudag en drengurinn þjá­ist af sjaldgæfum hrörnunarsjúkdómi en læknar segja að hann geti ekki séð, heyrt, hreyft sig, grátið eða kyngt. Hann er háður önd­un­ar­vél­ og hef­ur dvalið á gjör­gæslu frá því í októ­ber. Auk páfa hefur Donald Trump lýst yfir stuðningi við foreldra Gard.

Sjúkrahús Páfagarðs spurði breska lækna hvort mögulegt væri að flytja Gard þangað, eftir stuðningsyfirlýsingu Páfa. Hann sagði að hann vonaði að lækn­ar leyfðu þeim að ann­ast barnið þar til yfir lýk­ur.

Johnson sagði utanríkisráðherra Ítalíu að best væri að sérfræðingar tækju ákvarðanir sem þessar. Ekki væri hægt að senda drenginn til Ítalíu út af lagalegum flækjum.

Mariella Enoc, yfirmaður sjúkrahússins í Páfagarði, sagði að móðir drengsins hefði haft samband við hana. „Hún er mjög ákveðin manneskja og ætlar ekki að láta neitt stöðva sig í sinni baráttu.

For­eldr­ar drengsins, Chris Gard og Connie Ya­tes, hafa bar­ist fyr­ir því að fá Charlie í sína um­sjá til að fara með hann í til­raunameðferð í Banda­ríkj­un­um.

Fjallað hef­ur verið um málið á öll­um dóm­stig­um í Bretlandi en í síðustu viku komst Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu að þeirri niður­stöðu að lækn­um væri heim­ilt að taka hinn 10 mánaða Charlie Gard úr önd­un­ar­vél. Drengs­ins biði ekk­ert nema þján­ing og bata­horf­urn­ar væru eng­ar. 

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert