Blair ekki sannsögull um Írak

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands,var tillfinningaslega sannsögull en byggði meira …
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands,var tillfinningaslega sannsögull en byggði meira á eigin sannfæringu en staðreyndum er hann ákvað að Bretland tæki þátt í Íraksstríðinu, að mati Chilcot. AFP

Tony Blair sagði bresku þjóðinni ekki satt um þá ákvörðun sína að Bretland tæki þátt í Íraksstríðinu er hann var forsætisráðherra. Þetta sagði sir John Chilcot í samtali við BBC, en Chilcot sem birti í fyrra skýrslu um málið, hefur ekki áður tjáð sig um hvaða ástæður hann telur hafa legið að baki ákvörðun Blair.

Chilcot sagði vitnisburðinn sem Blair gaf nefndinni hafa verið „tilfinningalega sannan“, en að hann hefði reitt sig á eigin sannfæringu frekar en staðreyndir. Þá ræddi hann einnig hugarástand Blair á meðan á rannsókninni stóð, sem og samband hans við George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta í aðdraganda Íraksstríðsins.

Ekki þrautalausn

Rannsóknin tók sjö ár og kveðst Chilcot ekki hafa haft hugmynd um hve langan tíma rannsóknin ætti eftir að taka þegar hún fyrst hófst. Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar var að Blair hefði ýkt ógnina sem stafaði af Saddam Hussein og að innrás í Írak hefði ekki verið sú „þrautalausn“ sem hann kynnti fyrir breska þinginu.

Spurður hvort forsætisráðherra hefði verið jafn heiðarlegur við þjóðina og rannsóknarnefndina um málið og hann hefði geta verið, sagði Chilcot: „Hver sá forsætisráðherra sem fer með þjóð sína í stríð verður að vera heiðarlegur við þjóðina.“ Að sínu mati hefði svo ekki verið varðandi Íraksstríðið.

„Tony Blair er og var lögmaður. Hann leggur mál sitt fram á jafn sannfærandi hátt og hann getur. Hann víkur ekki frá sannleikanum, en sannfæring hans hans skiptir öllu.“

Blair hefði byggt meðmæli sín með þátttöku Bretlands í stríðinu á sínu eigin mati á aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert