Þröngvað inn í myrkan heim mansals

Hélène var flutt til Gabon þar sem hún átti að …
Hélène var flutt til Gabon þar sem hún átti að ganga í skóla. Þess í stað var hún hneppt í vinnuþrælkun. Ljósmynd/UNICEF

Hélène er aðeins fjórtán ára en hún hefur gengið í gegnum hrylling sem ekkert barn ætti að þurfa að þola. Hún ólst upp í sveitum Benín og varð að hætta skólagöngu til að sinna heimilisstörfunum. En fjölskylda hennar vildi bæta líf hennar og það varð til þess að hún féll fyrir gylliboðum þrælasalanna. 

„Foreldrum mínum var sagt að ég fengi að ganga í skóla í Gabon,“ segir hún. En allt annað varð uppi á teningnum. Hún var komin inn í myrkan heim mansals. Í stað þess að vera flutt til Gabon til að læra var hún hneppt í þrældóm. Henni var komið til fjölskyldu til Gabon þar sem ætlast var til að hún myndi elda og þrífa. „Ég fór aldrei í skóla í landinu,“ segir hún. „Ég var lamin og ef ég veiktist fékk ég ekki læknisaðstoð. Ég fékk heldur ekki nægan mat að borða.“

Komst loks aftur heim

Þrátt fyrir þessar ömurlegur aðstæður má segja að Hélène hafi verið heppin. Lögreglan kom henni til bjargar og flutti hana í athvarf þar sem hún fékk stuðning og læknishjálp. Einnig var henni hjálpað til að komast aftur heim til Benín. 

Stjórnvöld á svæðinu viðurkenna að mansal sé stórt vandamál. Þetta vandamál er vel falið og það hefur reynst þrautin þyngri að uppræta það. 

Þegar Hélène sneri aftur heim beið hennar ekkert annað en fátæktin sem foreldrar hennar höfðu vonast til að koma henni út úr.

Sögur barnanna í Vestur- og Mið-Afríku, þar sem rúmlega sjö milljónir þeirra eru á vergangi, eru margar svipaðar reynslu Hélène.

Mansalið falið

Í nýrri skýrslu UNICEF, þar sem rýnt er í orsakir þess að börn leggja á flótta í Afríku, kemur fram að mansal sé af öðrum toga en smygl og mannrán í heimshlutanum. Þeir sem stunda mansal leita uppi viðkvæmt fólk, oft í heimahögum þess, til að blekkja og svíkja. Fólkinu er talin trú um að þeirra bíði betri aðstæður í öðru landi en er svo oft selt í vinnuþrælkun eða vændi.

Fátækt og ómenntað fólk er í mestri hættu á að falla fyrir gylliboðunum í örvæntingu sinni. Börn í Vestur- og Mið-Afríku eru í sérstakri áhættu þar sem fólksflótti er þegar mikill innan svæðisins. Börnin eiga oft fáa að og hafa ekki þau úrræði eða þá þekkingu sem þarf til að sleppa úr klóm þrælasalanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert