Mætti vopnaður á fund Ivönku Trump

Ivanka Trump var ekki í byggingunni þegar maðurinn mætti á …
Ivanka Trump var ekki í byggingunni þegar maðurinn mætti á fund hennar. Hann reyndi að villa á sér heimildir og sagðist vera þingmaður. AFP

Leyniþjónusta Bandaríkjana handtók í gær karlmann sem var íklæddur skotheldu vesti og vopnaður tveimur litlum hnífum sem sagðist vera bandarískur þingmaður, mættur á fund Ivönku Trump, dóttur Donalds Trump Bandaríkjaforseta, í Trump-turninum í New York.

Hinn handtekni, Adames Benitez, var 52 ára og var fluttur á sjúkrahús þar sem hann undirgekkst geðrænt mat. Hann á yfir höfði sér ákæru fyrir að bera vopn og fyrir að bera á sér falsað auðkenniskort. Í frétt ABC-fréttastofunnar af málinu segir að í fórum mannsins hafi auk hnífanna tveggja fundist sokkur sem einhverju hafi verið troðið inn í til að þyngja hann.

Benitez sagðist vera þingmaður sem ætlaði að ræða við Ivönku um fatalínuna hennar. Ivanka var þó sjálf ekki í byggingunni, en hún var á ferðalagi með föður sínum sem er eins og kunnugt er á G20-leiðtogafundinum í Hamborg í Þýskalandi í dag. 

Frétt ABC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert