Ráku þúsundir hælisleitenda á brott

Talið er að rúmlega 2.000 manns hafi hafst við á …
Talið er að rúmlega 2.000 manns hafi hafst við á gangstéttum í Porte de la Chapelle. AFP

Franska lögreglan hrakti í morgun á brott þúsundir hælisleitenda sem hafa hafst við á gangstéttum í einu úthverfa Parísar. Á fjórða hundrað lögreglumenn í tugum lögreglubíla komu í Porte de la Chapelle-hverfið klukkan fimm í morgun og létu fólkið færa sig.

Að sögn Dominique Versini hjá borgarskrifstofum Parísar höfðust rúmlega 2.000 manns við ýmist í hrörlegum skýlum eða undir berum himni á gangstéttum hverfisins.

Um það bil 100 flóttamenn og hælisleitendur bætast dag hvern í raðir þeirra sem hafast við í Porte de la Chapelle. Margir þeirra hafa flúið frá átakasvæðum í ríkjum á borð við Súdan, Erítreu og Afganistan.

„Þessar ólöglegu búðir eru öryggis- og heilsufarsógn við bæði þá sem þar hafast við, sem og íbúa á svæðinu,“ sagði Versini í samtali við frönsku CNews-sjónvarpsstöðina.

Fólkinu var fylgt um borð í rútur sem fara með það í tímabundið húsnæði, m.a. í íþróttasölum í borginni.

Gerard Collomb, innanríkisráðherra Frakklands, sagði fyrr í vikunni að ástandið væri að fara úr böndunum. „Þetta er alltaf sama vandamálið,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Collomb. „Fyrst segist maður ætla að opna miðstöð fyrir 500 manns og fyrr en varir eru þar 3.000 eða 4.000 manns og maður þarf að reyna að leysa þann vanda.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur beðið Collomb að flýta afgreiðslu hælisumsókna þannig að yfirvöld geti svarað því á innan við hálfu ári hverjir fái hæli og hverjir verði sendir úr landi.

Lögregla stendru vörð á meðan fólkinu var vísað upp í …
Lögregla stendru vörð á meðan fólkinu var vísað upp í rútur og flutt á brott. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert