Neitað um bernsku í Suður-Súdan

Börn í Suður-Súdan búa við mikil átök og skort á …
Börn í Suður-Súdan búa við mikil átök og skort á nauðsynlegri þjónustu. Ljósmynd/UNICEF

Sex ár eru síðan Suður-Súdan fékk sjálfstæði en vegna mikilla átaka og skorts á nauðsynlegri þjónustu búa börn þar í landi við hörmulegar aðstæður segir UNICEF.

„Milljónir barna í Suður-Súdan líða óhugsanlega erfiðleika og bakslag í menntun, næringu, heilsu og réttindum,“ segir Mahimbo Mdoe, fulltrúi UNICEF í Suður-Súdan, degi fyrir sjálfstæðisdag Suður-Súdana 9. júlí.

Segir hann að yfir tvær milljónir barna hafi flúið heimili sín vegna ofbeldisfullra deilna og í síðasta mánuði náði tala flóttabarna einni milljón. Þá hafa yfir tvö þúsund börn verið drepin eða slasast og enn fleiri verið vitni að hræðilegum átökum.

„Tölurnar eru sláandi á sama tíma og hver og ein þeirra stendur fyrir viðvarandi vansæld hvers barns“.

Yfir tvær milljónir barna hafa flúið heimili sín vegna ofbeldisfullra …
Yfir tvær milljónir barna hafa flúið heimili sín vegna ofbeldisfullra deilna og í síðasta mánuði náði tala flóttabarna einni milljón. Ljósmynd/UNICEF

Neitað um bernsku

Í tilkynningu UNICEF segir að börnum í Suður-Súdan sé neitað um bernsku í öllum þeim skilningi.

Um 2,2 milljónir barna í landinu ganga ekki í skóla en landið er með hæsta hlutfall barna sem fá ekki menntun í heiminum eða yfir 70%. Þá hefur meira en þriðjungur skóla þar í landi orðið fyrir vopnuðum árásum.

Í síðasta mánuði var varað við því að meira en helmingur íbúa byggi við fæðuóöryggi. Áætlað er að um 1,1 milljón barna sé vannærð, þar af 290.000 alvarlega en þau eru níu sinnum líklegri til þess að deyja en börn sem eru vel nærð.

Börnin eru berskjölduð gegn lífshættulegum sjúkdómum eins og mislingum og kóleru. Er núverandi útbreiðsla kóleru sú lengsta og víðfeðmasta í sögu landsins en meira en 10.000 tilfelli hafa verið skráð síðan faraldurinn hófst fyrir ári og er helmingur þeirra börn.

Þá hafa að minnsta kosti 2.500 börn látist eða slasast í átökunum sem hófust í desember 2013 auk þess sem 254 nauðganir og kynferðisglæpir gegn börnum hafa verið tilkynnt.

Einnig er vitað um 17.000 börn sem eru í hersveitum og öðrum vopnuðum hópum í Suður-Súdan.

Áætlað er að um 1,1 milljón barna í Suður-Súdan sé …
Áætlað er að um 1,1 milljón barna í Suður-Súdan sé vannærð, þar af 290.000 alvarlega en þau eru níu sinnum líklegri til þess að deyja en börn sem eru vel nærð. Ljósmynd/UNICEF

UNICEF hjálpar þeim sem eru í neyð

Í tilkynningu UNICEF greina samtökin frá starfi sínu og samstarfsmanna sinna í þágu þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda í Suður-Súdan. Hafa þau útvegað fjölda fólks aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu.

Samtökin hafa meðhöndlað fjölda barna við hinum ýmsu sjúkdómum og vannæringu auk þess að hafa veitt 184.000 börnum aðgengi að menntun og sameinað margar fjölskyldur ásamt því að hafa bjargað 1.538 börnum úr hersveitum.

Neyðarsöfnun UNICEF vegna hungursneyðar í Suður-Súdan, Jemen, Nígeríu og Sómalíu er í fullum gangi. Samtökin eru á vettvangi í öllum þessum ríkjum og með viðamiklar neyðaraðgerðir sem miða að því að veita lífsnauðsynlega hjálp, meðhöndla börn gegn vannæringu og koma í veg fyrir að fleiri verði vannærð.

UNICEF vinnur að starfi í þágu þeirra sem þurfa mest …
UNICEF vinnur að starfi í þágu þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda í Suður-Súdan. Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert