Samningur um bann við kjarnavopnum samþykktur hjá SÞ

122 ríki samþykktu sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum í gær á sérstakri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Sáttmálinn getur leitt til lagalega bindandi alþjóðasamnings um bann við kjarnorkuvopnum. Stuðningsmenn þessa alþjóðlega samkomulags vonast til að það muni leiða til endanlegrar útrýmingar á öllum kjarnorkuvopnum. Þetta kemur fram á vef Sameinuðu þjóðanna.

Samþykktur af 122 löndum

Samningurinn var samþykktur af 122 löndum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í gær, eftir margra mánaða viðræður í sterkri andstöðu frá ríkjum sem eiga kjarnavopn og bandamenn þeirra. Þannig eru flest aðildarríki Norður-Atlantshafsbandalagsins, NATO, á móti samningnum. Aðeins Holland, sem tók þátt í umræðunni, kaus þó gegn samningnum.

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, segir samninginn vera mikilvægt skref og framlag í átt að heimi án kjarnorkuvopna.

Sögulegur atburður fyrir mannkynið

„Þetta er sögulegur atburður fyrir mannkynið,“ sagði Elayne Whyte Gómez, sendiherra Kostaríka, sem var forseti ráðstefnunnar sem stóð fyrir samningu sáttmálans. Hann var saminn í samræmi við umboð sem samþykkt var af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í lok síðasta árs. „Þetta er tilfinningaleg stund vegna þess að við erum að bregðast við vonum og draumum núverandi og komandi kynslóða,“ sagði hún.

Samningurinn bannar alls kyns starfsemi sem tengist kjarnorkuvopnum, svo sem að þróa, prófa, framleiða, eiga eða geyma kjarnorkuvopn, svo og notkun þeirra eða hótun um að þeim sé beitt.

Bandaríkin leiddu gagnrýnina á samkomulagið og bentu meðal annars á …
Bandaríkin leiddu gagnrýnina á samkomulagið og bentu meðal annars á kjarnorkuvopn Norður-Kóreu sem eina af ástæðum þess að halda í eigin vopn. AFP

Ísland styður ekki samkomulagið

Samkvæmt vef ICANSamtaka um alþjóðlega herferð til afnáms kjarnavopna, styður Ísland ekki lagalega bindandi alþjóðasamning um bann við kjarnorkuvopnum. Í árslok 2016 greiddi Ísland atkvæði gegn því að hefja skuli undirbúning og gerð á samningnum, sem nú hefur litið dagsins ljós. Á vefnum segir að Ísland haldi fram að bandarísk kjarnavopn séu nauðsynleg fyrir öryggi landsins.

Öll ríkin sem eiga kjarnavopn og önnur ríki, sem annaðhvort falla undir vernd þeirra eða geyma kjarnavopn innan sinna landamæra, tóku ekki þátt í viðræðunum. Bandaríkin leiddu gagnrýnina á samkomulagið og bentu meðal annars á kjarnorkuvopn Norður-Kóreu sem eina af ástæðum þess að halda í eigin vopn. Bretland fór ekki í viðræður þrátt fyrir kröfur ríkisstjórnarinnar til stuðnings marghliða afvopnun.

Heimur laus við gereyðingarvopnin

Sáttmálinn sem er um tíu blaðsíður fjallar um bann við kjarnorkuvopnum og verður tilbúinn til undirritunar ríkja Sameinuðu þjóðanna 20. september á Allsherjarþingi samtakanna. Hann verður að alþjóðalögum 90 dögum eftir að fimmtugasta ríkið fullgildir samninginn.

Þó að ekki sé gert ráð fyrir að ríki sem eiga kjarnavopn undirriti sáttmálann á næstunni, telja stuðningsmenn hans að með því að banna vopnin samkvæmt alþjóðalögum, marki það mikilvægt skref í átt að heimi sem laus er við gereyðingarvopnin.

Ítarleg frétt AFP um málið. 

Fyrri frétt mbl:Ísland sat hjá um bann við kjarnavopnum

Fyrri frétt mbl:Trump vill aukinn kjarnorkuvopnastyrk

 



 

Elayne Whyte Gómez, sendiherra Kostaríka og forseti ráðstefnunnar sem stóð …
Elayne Whyte Gómez, sendiherra Kostaríka og forseti ráðstefnunnar sem stóð fyrir samningnum. „Þetta er tilfinningaleg stund vegna þess að við erum að bregðast við vonum og draumum núverandi og komandi kynslóða,“ sagði hún. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert