Biðlar til dómara að hlusta

Charlie Gard.
Charlie Gard.

Móðir ellefu mánaða gamals drengs með ban­væn­an sjúk­dóm hefur biðlað til dómara að hlusta á sérfræðinga sem telja tilraunameðferð geta verið „kraftaverk“ fyrir son hennar.

Fjallað hefur verið um mál Charlie Gard á öllum dómstigum í Bretlandi en í síðustu viku komst Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu að þeirri niður­stöðu að lækn­um væri heim­ilt að taka hann úr önd­un­ar­vél. Drengs­ins biði ekk­ert nema þján­ing og bata­horf­urn­ar væru eng­ar. 

Yfirréttur í Bretlandi mun í dag dæma í málinu á ný, en nýjar upplýsingar frá barnaspítalanum í Vatíkaninu um tilraunameðferð sem gæti hjálpað Gard, verða þar teknar fyrir.

Cannie Yates, móðir Gard, sagði í samtali við Sky News að sjö læknar væru sammála um að láta reyna á meðferðina. „Fyrir þessa sjaldgæfu sjúkdóma eru sérfræðingar, og ég vona að dómararnir hlusti á þá og gefi okkur tækifæri,“ sagði hún.

Dreng­ur­inn þjá­ist af sjald­gæf­um hrörn­un­ar­sjúk­dómi en lækn­ar segja að hann geti ekki séð, heyrt, hreyft sig, grátið eða kyngt. Hann er háður önd­un­ar­vél­ og hef­ur dvalið á gjör­gæslu frá því í októ­ber.

For­eldr­ar Gard hafa bar­ist fyr­ir því að fá að flytja dreng­inn til Banda­ríkj­anna í meðferð. Frans páfi hefur lýst yfir stuðningi við for­eldra Gard og sagðist von­ast til þess að lækn­ar myndu sjá um dreng­inn þar til yfir lyki.

Sjúkra­hús í Vatíkan­inu hef­ur boðist til að hlúa að Gard. Trump hefur einnig sagt að Banda­rík­in væru reiðubú­in að aðstoða dreng­inn og fjöl­skyldu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert