Dæma um vopnasölu Breta

AFP

Undirréttur í Bretlandi mun í dag kveða upp úrskurð um það hvort vopnasala breskra stjórnvalda til Sádi-Arabíu sé lögleg. Dómstóllinn mun ákvarða hvort bresk yfirvöld hafi átt að hætta vopnasölunni, þar sem landið er í stríði við Jemen. BBC greinir frá.

Sameinuðu þjóðirnar segja loftárásir Sáda og bandamanna þeirra hafa valdið dauða þúsunda almennra borgara. Samtökin Herferð gegn vopnaviðskiptum höfðaði málið, og segja bresk stjórnvöld hafa tekið þátt í mannréttindabrotum.

Meðal þess sem Bretar hafa selt Sádum eru Typhoon- og Tornado-herþotur auk fjarstýrðra flugskeyta. Í frétt BBC kemur fram að vopnasalan veiti þúsundum verkfræðinga störf í Bretlandi og tryggi breskum vopnaviðskiptum milljarða punda.

Sádi-Arabía hefur stutt stjórnvöld í Jemen eftir að borgarastríð braust út árið 2015. Uppreisnarmenn úr röðum Húta hafa herjað á stjórnarherinn og tekið undir sig töluvert landsvæði. Síðan þá hafa Sádar og átta önnur ríki beint loftárásum gegn Hútum. 

Ástandið í Jemen er slæmt en landið er á barmi hungursneyðar og tvær milljónir hafa þurft að flýja heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert