Hættir störfum eftir drápið á Castile

Lög­reglumaður­inn Jeroni­mo Ya­nez.
Lög­reglumaður­inn Jeroni­mo Ya­nez. AFP

Lögreglumaður, sem skaut blökkumanninn Philando Castile til bana í júlí í fyrra, hefur samið um starfslok á lögreglustöðinni þar sem hann starfaði. Dómstóll í Minnesota sýknaði hann af ákæru vegna málsins fyrr á árinu.

Times greinir frá því að Jeroni­mo Ya­nez hafi verið greiddir 48.500 dollarar fyrir að láta af störfum. Það samsvarar um fimm milljónum króna.

Frétt mbl.is: Bandarískur lögreglumaður sýknaður

Lög­reglumaður­inn Jeroni­mo Ya­nez, 29 ára, var sýknaður af þrem­ur ákær­um: Ann­ars veg­ar fyr­ir mann­dráp af ann­arri gráðu og hins veg­ar fyr­ir að hafa vilj­andi hleypt af hættu­legu skot­vopni og þar með lagt kær­ustu Castile í hættu ásamt fjög­urra ára dótt­ur henn­ar. Mæðgurn­ar voru í bíln­um þegar Castile var skot­inn til bana.

Hóp­ur fólks mót­mæl­ir dráp­inu á Castile í Minnesota í júlí.
Hóp­ur fólks mót­mæl­ir dráp­inu á Castile í Minnesota í júlí. AFP

Síðustu and­ar­tök Castile náðust á mynd­bandi sem var birt í beinni út­send­ingu á Face­book og vakti málið mikla at­hygli.

Sam­kvæmt máls­skjöl­um stöðvaði Ya­nez parið vegna þess að það leit út eins og fólk sem hafði framið rán í kjör­búð í grennd­inni og vegna þess að bremsu­ljós á bíln­um virkaði ekki. Castile upp­lýsti lög­reglu­mann­inn um að hann væri með byssu í bíln­um og bað Ya­nez hann um að teygja sig ekki eft­ir henni.

Skömmu síðar skaut lög­reglumaður­inn Castile sjö skot­um þar sem hann sat enn í öku­manns­sæt­inu með beltið spennt. Kær­asta hans seg­ir að hann hafi verið að teygja sig í veskið sitt en ekki byss­una.

Upp­tak­an af at­vik­inu vakti mikla hneyksl­an í Banda­ríkj­un­um og varð drápið á Castile til­efni mót­mæla en það átti sér stað dag­inn eft­ir annað dráp lög­reglu­manns á blökku­manni í Bat­on Rou­ge í Lúisíana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert