Enginn spítali tekur við drengnum

Charlie Gard.
Charlie Gard.

Samband foreldra hins ellefu mánaða gamla Charlie Gard, sem haldinn er banvænum hrörnunarsjúkdómi og berst fyrir lífi sínu, við sjúkrahúsið þar sem hann liggur í öndunarvél er orðið svo slæmt að reynt var að færa drenginn. En enginn annar spítali vildi taka við honum.

Breska dagblaðið Telegraph greinir frá þessu.

Læknar á Great Ormond Street-spítalanum vilja taka öndunarvélina úr sambandi þar sem þeir segja ekkert líf bíða drengsins. Foreldrarnir hafa barist fyrir því að drengurinn fái að lifa, en vegna sjúkdóms hans getur hann ekki opnað augun, borðað eða hreyft sig að nokkru viti sjálfur.

Í frétt Telegraph er haft eftir lögmanni foreldranna að viðræður hafi staðið yfir við aðra spítala en enginn hafi viljað taka við barninu.

Foreldrarnir, Connie Ya­tes og Chris Gard, höfðuðu fyrr á árinu mál þar sem þeim var neitað að fara með son sinn úr landi til Bandaríkjanna þar sem búið var að bjóða þeim upp á tilraunameðferð fyrir drenginn. Söfnuðu þau 1,3 milljónum punda til ferðarinnar en fengu neitun á öllum dómstigum. Málið var á dögunum tekið fyrir á ný vegna nýrra upplýsinga. 

Dómari mun kveða upp dóm í málinu á nýjan leik síðar í dag, og munu örlög Charlies þá ráðast. Málið hefur vakið gríðarlega athygli um allan heim.

Connie Ya­tes og Chris Gard bíða þess nú að vita …
Connie Ya­tes og Chris Gard bíða þess nú að vita hvort dómari leyfi þeim að fara með drenginn til Bandaríkjanna í tilraunameðferð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert