Frakkar taka á ólöglegum innflytjendum

Forsætisráðherra Frakklands boðar breytingar í innflytjendamálum.
Forsætisráðherra Frakklands boðar breytingar í innflytjendamálum. AFP

Áætlað er að stytta biðtíma hælisumsókna í Frakklandi, fjölga húsnæði fyrir flóttafólk og vísa ólöglegum innflytjendum úr landi. Þetta segir Edou­ard Philippe forsætisráðherra. Nýrri aðgerðaáætlun er ætlað að taka á flæði tugþúsunda flóttafólks sem koma til Frakklands á hverju ári, að sögn Philippe. Hann segir að markmiðið sé að tryggja réttinn til hælis og betri stjórn á fólksflutningum. 

Frakkaland tók við 85 þúsund hælisumsóknum á síðasta ári og hefur Emmanuel Macron forseti sagt að ástandið sé „algjörlega yfirþyrmandi“. Stjórnvöld hafa fengið gagnrýni frá góðgerðarstofnunum fyrir að útvega ekki fullnægjandi húsakost fyrir þá sem koma með þessum hætti til landsins. Það hafi orðið til þess að fólk hafi safnast saman í óviðunandi flóttamannabúðum í norðurhluta landsins og utan Parísaborgar. 

„Þetta er ekki Frakkland sem áður var,“ viðurkenndi Philippe og benti á að 40% hælisleitenda hefðu ekki aðgang að húsaskjóli en þar yrði fjölgað um 12.500 næstu tvö ár.

Philippe sagði að áætlunin krefðist þess að yfirvöld geti stytt biðtíma hælisumsókna niður í sex mánuði úr fjórtán. Vísa þurfi þeim úr landi sem verði hafnað og til þess þurfi að endurskilgreina lagarammann. 

„Við verðum að gera þeim sem leita að betri lífskjörum grein fyrir því að við getum ekki tekið við öllum,“ sagði Philippe. Hann sagði að stefnt yrði að því að styrkja starfsþjálfun og tungumálaþjálfun fyrir innflytjendur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert