Festist inni í hraðbanka

Viðskiptavinur heyrði lága rödd koma út úr hraðbankanum og hringdi …
Viðskiptavinur heyrði lága rödd koma út úr hraðbankanum og hringdi á lögregluna.

Karlmaður sem festist á bak við hraðbanka í Texas sendi viðskiptavinum bankans skilaboð um raunir sínar í gegnum rauf sem kvittanir fyrir viðskiptin koma út um. 

Lögreglan í Corpus Christi segir að maðurinn hafi fest sig inni í litlu rými að baki hraðbankanum á miðvikudag í síðustu viku er hann var að skipta um lás á hurðinni. Hann hafði skilið símann sinn eftir úti í bíl og er hann hafði skipt um lásinn áttaði hann sig á því að hann gat ekki opnað dyrnar.

Þá voru góð ráð dýr og maðurinn greip að lokum til þess ráðs að skrifa miða með skilaboðum til þeirra sem voru að nota bankann. „Ég er fastur hérna,“ stóð m.a. á miðanum. Viðskiptavinur sem áttaði sig á hvernig í pottinn væri búið hringdi á lögregluna. Sá sagðist hafa heyrt lága rödd koma úr hraðbankanum.

Lögreglan kom fljótt á vettvang og kom manninum til bjargar, segir í frétt AP-fréttastofunnar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert