Fordæma myndbirtingu frá árásinni í Nice

Fjöldi fólks minntist fórnarlambanna í kjölfar árásarinnar í Nice.
Fjöldi fólks minntist fórnarlambanna í kjölfar árásarinnar í Nice. AFP

Ákæruvaldið í París hefur krafist þess að nýjasta tölublað Paris Match verði tekið úr sölu en í því er að finna myndir úr öryggismyndavélum af árásinni í Nice 14. júlí í fyrra. 86 létust í árásinni þegar vöruflutningabifreið var ekið inn í hóp af fólki á Bastillu-daginn.

Birting myndanna hefur vakið hörð viðbrögð samtaka fórnarlamba árásarinnar, sem saka tímaritið um „sjúklega æsifréttamennsku“.

Ákæruvaldið hefur biðlað til dómstóla um að fyrirskipa sölubann og banna alla birtingu, ekki síst á netinu.

Þá hefur borgarstjóri Nice, Christian Estrosi, gagnrýnt tímaritið fyrir myndbirtinguna, nú þegar ár er liðið frá harmleiknum.


Í ritstjórnargrein sem birtist á heimasíðu Paris Match fyrir miðnætti í gær sagði ritstjórinn Olivier Royant að tímaritið hygðist berjast með kjafti og klóm fyrir rétti almennra borgara, ekki síst fórnarlambanna, til að vita nákvæmlega hvað gerðist.

Blaðamenn tímaritsins hefðu komist að því að árásarmaðurinn hefði farið könnunarferðir um árásarvettvang í meira en ár áður en hann lét til skarar skríða.

Börn voru meðal þeirra látnu en lögregla skaut árásarmanninn til bana. Um 300 særðust.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert