Ferðabann Trumps of þröngt

Ferðabannið hefur verið harðlega gagnrýnt.
Ferðabannið hefur verið harðlega gagnrýnt. AFP

Hugtakið „náinn ættingi“ er skilgreint of þröngt í ferðabanni Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Afar, ömmur, barnabörn og fleiri ættingjar ættu líka að falla undir hugtakið, ólíkt því sem ríkisstjórn Trump hafði gefið út. Þessu hefur dómari á Havaí komist að. BBC greinir frá.

Frétt mbl.is: Ferðabann Trump tekur gildi

Ferðabannið beinist gegn ríkisborgurum sex ríkja þar sem meirihluti íbúa er múslimar. Bannið hef­ur í för með sér að ein­stak­ling­ar sem ekki eiga „nána fjöl­skyldumeðlimi“ í Banda­ríkj­un­um eða eiga viðskipta­hags­muna að gæta geta átt erfitt með að kom­ast inn í landið.

„Óhóflega takmarkandi“

Dómarinn Derrick Watson sagði í dómi sínum í gær að ríkisstjórn Trumps hefði túlkað dóm Hæstaréttar Bandaríkjanna of þröngt, en rétturinn sagði í síðasta mánuði að stjórn­völd­um væri heim­ilt að fram­fylgja bann­inu, nema í þeim til­vik­um þegar um væri að ræða ein­stak­linga sem hefðu sann­ar­lega lög­mæt tengsl við Banda­rík­in.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum ákváðu hins vegar að skil­greina hugtakið „ná­inn ætt­ingi“ og und­an­skilja ömm­ur og afa, frænd­ur og frænk­ur og barna­börn. Watson sagði þetta ekki vera í samræmi við dóm æðsta réttarins og því mætti ekki banna þessum ættingjum að koma inn í landið vegna bannsins.

Fordæmdi hann skilgreiningu ríkisstjórnarinnar og sagði hana „óhóflega takmarkandi“.

Trump segir bannið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir hryðjuverk

„Heilbrigð skynsemi segir að afar og ömmur séu skilgreind sem nánir ættingjar. Raunar eru þau táknmynd náinna ættingja,“ skrifaði hann í dómnum.

Rík­in sex sem regl­urn­ar ná til eru Íran, Líb­ía, Sýr­land, Sómal­ía, Súd­an og Jemen. Þá ná þær til allra flótta­manna. Hæstiréttur Bandaríkjanna er enn að meta hvort bannið í heild sinni standist lög og reglur í landinu, en rétturinn leyfði í síðasta mánuði tímabundið bann þar til hann kæmist að endanlegri niðurstöðu.

Trump hefur sagt að takmarkanirnar séu nauðsynlegar til að halda Bandaríkjunum öruggum og koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert