Segist geta bjargað drengnum

AFP

Bandarískur læknir hringdi á Great Ormond Street-spítalann í London á dögunum fyrir hönd Hvíta hússins og bauð fram ný gögn sem hann segir að geti bjargað lífi Charlie Gard, ellefu mánaða gamals drengs sem berst fyrir lífi sínu. Breska dagblaðið Telegraph greinir frá.

Þetta kom fram í réttarhöldum í gær, þegar mál Charlies var tekið fyrir á ný af yfirrétti í Bretlandi. Foreldrar hans hafa farið fram á að fá að ferðast með hann til Bandaríkjanna í tilraunameðferð, en hafa fengið neitun á öllum dómstigum. Læknar og dómarar hafa verið sammála um að taka eigi öndunarvél sem heldur Charlie á lífi úr sambandi.

Vegna nýrra gagna var málið tekið fyrir á nýjan leik. Í réttarhöldunum kom fram að ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hafi haft samband við lækninn daginn eftir að Trump tjáði sig um mál Charlies opinberlega og sagðist geta tekið á móti drengnum. 

Charlie Gard.
Charlie Gard.

Dómarinn í málinu spurði lækninn hvort hann væri tilbúinn að fljúga til London og rannsaka drenginn ef gert yrði hlé á réttarhöldum í nokkra daga. „Já, ef það er nauðsynlegt myndi ég glaður gera það,“ svaraði læknirinn. 

Hann sagði fyrir dómi í gær að nýjar upplýsingar um tilraunameðferð sem gerð hefur verið á níu börnum með svipaðan sjúkdóm og Charlie, en ekki jafnalvarlegan, sýndu að fimm þeirra – eða um 56% – hefðu sýnt framfarir eftir meðferðina.

Sagði hann eitt barnið, sem áður þurfti að vera í öndunarvél átta tíma á dag, ekki lengur þurfa á vélinni að halda.

Connie Yates og Chris Gard, foreldrar hins 11 mánaða gamla …
Connie Yates og Chris Gard, foreldrar hins 11 mánaða gamla Charlie Gard. AFP

Dóm­ar­inn sagði við fyr­ir­töku máls­ins á þriðju­dag að hann myndi glaður breyta um skoðun frá því í apríl, en það þyrfti mjög sterk­ar sann­an­ir fyr­ir ár­angri meðferðar­inn­ar svo hann myndi gera það. 

For­eldr­arn­ir hafa bar­ist fyr­ir því að dreng­ur­inn fái að lifa, en vegna sjúk­dóms hans get­ur hann ekki opnað aug­un, borðað eða hreyft sig að nokkru viti sjálf­ur. Söfnuðu þau 1,3 millj­ón­um punda til ferðar­inn­ar til Bandaríkjanna og 350 þúsund undirskriftum.

Málið vakti heims­at­hygli í síðustu viku þegar Frans páfi lýsti yfir stuðningi við for­eldra Charlie og þá hef­ur Bamb­ino Gesu, sjúkra­hús á veg­um Vatík­ans­ins, boðist til að taka dreng­inn til meðferðar. Trump Banda­ríkja­for­seti tjáði sig einnig um málið í síðustu viku og sagði þarlend yf­ir­völd reiðubú­in til að aðstoða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert