„Ég er hér til að syrgja fórnarlömbin“

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael og Emmanuel Macron, forseti Frakklands við …
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael og Emmanuel Macron, forseti Frakklands við minningarathöfnina í dag. AFP

„Ég er hér til að syrgja fórnarlömbin,“ sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, er hann ávarpaði viðstadda í París í dag. Forsætisráðherrann er staddur í París til að taka þátt í minningarathöfn um fórnarlömb fjöldahandtöku sem nasistar framkvæmdu í Frakklandi árið 1942.

Þá voru yfir 13.000 gyðingar sviptir frelsi sínu og safnað saman á Velodrome d'Hiver-vellinum áður en fólkið var loks flutt í útrýmingarbúðir nasista. Þetta er í fyrsta sinn sem ísraelskur forsætisráðherra tekur þátt í athöfninni en Netanyahu mun einnig eiga fund með Emmanuel Macron, forseta Frakklands, meðan á heimsókninni stendur.

„Fyrir 75 árum áttu sér stað myrkir atburðir í þessari borg ... Virðist sem gildi frönsku byltingarinnar; frelsi, jafnrétti, bræðralag, hafi verið virt algjörlega að vettugi í nafni gyðingahaturs,“ sagði forsætisráðherrann í ávarpi sínu í dag.

Auk þess að vara við hættum öfgahyggju nútímans fagnaði forsætisráðherrann „þeim stórkostlegu manneskjum“ sem hefðu fórnað lífi sínu til að bjarga gyðingum í Frakklandi í valdatíð nasista.

Af þeim um það bil 13.000 manns sem franska lögreglan handtók hinn 16. og 17. júlí árið 1942 voru um 4.000 börn. Innan við 100 manns lifðu af en flestir voru í framhaldinu fluttir í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz.

Atburðurinn er enn umdeildur í Frakklandi. Marine Le Pen, leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar sem mætti Macron í seinni umferð frönsku forsetakosninganna fyrr á árinu, var harðlega gagnrýnd hinn 9. apríl þegar hún gaf það í skyn að Frakkar bæru ekki ábyrgð á hörmungunum. Við minningarathöfnina sem fram fór í París í dag ítrekaði Macron forseti þó að það „hafi verið Frakkland“ sem skipulagði fjöldahandtökurnar.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert