Bjóða Norður-Kóreu til viðræðna

Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu, fagnar hér langdræga eldflaugaskotinu sem lenti …
Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu, fagnar hér langdræga eldflaugaskotinu sem lenti í Japanshafi fyrr í mánuðinum. AFP

Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa boðið ráðamönnum Norður-Kóreu til viðræðna um hernaðarmál. Spenna hefur farið stigvaxandi á Kóreuskaganum undanfarnar vikur og mánuði og jókst hún enn frekar eftir að Norður-Kóreu tókst að skjóta langdrægri eldflaug í tilraunaskyni nú fyrr í mánuðinum.

Fallist yfirvöld í Norður-Kóreu á viðræðurnar, þá verður það í fyrsta skipti frá 2015 sem ráðamenn ríkjanna ræðast við. Er þetta fyrsta tilboðið um viðræður sem suðurkóresk stjórnvöld senda Norður-Kóreu frá því að Moon Ja-In tók við embætti forseta Suður-Kóreu nú í vor, en í kosningabaráttu sinni varð honum tíðrætt um að bæta samskipti ríkjanna.

Tilboðið er þó ekki sent frá forsetaembættinu, heldur varnarmálaráðuneytinu.

BBC hefur eftir háttsettum embættismanni að tilgangur viðræðnanna væri að stöðva allar fjandsamlegar aðgerðir sem ykju á hernaðarspennu á landamærum ríkjanna.

Norður-Kórea hefur enn ekki svarað tilboðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert