Dómstóll dæmir gegn tómatsmóðgunum

Tómatar.
Tómatar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Formaður kjörstjórnar í Papúa Nýju-Gíneu vann mál gegn bloggara sem líkti nafni hans við tómat og birt mynd af honum með tómat í stað höfuðs. 

Fréttavefur breska ríkisútvarpsins greinir frá því að formaðurinn, sem heitir Patilias Gamato, hafi unnið málið gegn Martyn Namarong sem, vegna líkinda eftirnafnsins og enska orðsins „tomato“, hafi kallað hann tómat og var sakaður um að hafa birt mynd af formanninum með tómat í stað höfuðs.

Namarong neitar að hafa birt myndina. 

„Hann setti fram ærumeiðandi fullyrðingar og kallaði eftirnafnið mitt „tómat“,“ sagði Gamato við fjölmiðla. „Ég lít ekki út eins og tómatur, ég er mannvera.“

Talning atkvæða í landinu stendur enn yfir en áhyggjur hafa vaknað yfir því að atkvæði hafi verið keypt með fé úr ríkissjóði. Fyrstu tölur gefa til kynna að sitjandi forsætisráðherra Peter O'Neill haldi sæti sínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert