Hefja aðra lotu Brexit-viðræðna

David Davis og Michel Barnier takast í hendur fyrir fundinn ...
David Davis og Michel Barnier takast í hendur fyrir fundinn í dag. AFP

Samningamenn Breta og Evrópusambandsins hyggjast „ná inn að kjarna málsins“ þegar þeir hefja viðræður um úrsögn Breta úr sambandinu í dag. Þá er Theresa May, forsætisráðherra Breta, sögð ætla að freista þess að lægja öldurnar innan eigin ríkisstjórnar þar sem ráðherrar hafa att kappi hver gegn öðrum.

David Davis, Brexit-ráðherra Breta, og Michel Barnier, samningamaður ESB, hófu aðra lotu samningaviðræðnanna í dag en miðað er að úrsögn Breta í mars 2019.

„Nú er tíminn til að hefjast handa og vinna að árangursríkum samningaviðræðum,“ sagði Davis við blaðamenn þegar Barnier tók á móti honum í höfuðstöðvum framkvæmdastjórnar ESB.

Yfirstandandi viðræðulota mun standa í fjóra daga og standa vonir til afgreiðslu lykilmála á borð við réttindi ríkisborgara og þá upphæð sem Bretar þurfa að greiða vegna úrsagnarinnar. Ef allt gengur upp stendur til að hefja viðræður um mögulegan fríverslunarsamning síðar á árinu.

„Það er okkur afar mikilvægt að við náum góðum árangri; að við semjum okkur í gegnum þetta og berum kennsl á ágreiningsefnin þannig að við getum leyst úr þeim, og borið kennsl á það sem við erum einhuga um til að ná saman um þau mál,“ sagði Davis.

Barnier, sem hefur ítrekað hvatt Breta til að gefa út heildstæða útgönguáætlun, sagði að aðilar þyrftu að rannsaka og bera saman afstöðu sína til að ná árangri.

„Við munum nú komast að kjarna málsins,“ sagði samningamaðurinn, sem áður var utanríkisráðherra Frakklands.

Samningamenn Evrópusambandsins og Bretlands.
Samningamenn Evrópusambandsins og Bretlands. AFP

Tómhentir Bretar

Davis staldraði þó stutt við hjá Barnier og hélt eftir nokkrar klukkustundir til baka til Bretlands, vegna aðkallandi starfa á þinginu. Hann snýr aftur til Brussel á morgun og mun þá funda með Barnier og koma fram á blaðamannafundi.

Myndir af fyrsta fundi mannanna sýna samningamenn Evrópusambandsins sitja með mikla blaðabunka fyirr framan sig, mót glaðlegum en tómhentum samningamönnum Breta.

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa gengið fram af nokkurri hörku síðustu vikur og sakað Breta um að sveiflast á milli þess að stefna að „hörðum“ og „mjúkum“ Brexit. Meira en ár er liðið frá kosningunum sem komu May til valda.

Eftir skyndikosningar 8. júní sl. hefur umboð stjórnarinnar veikst, þar sem Íhaldsflokkurinn hefur ekki lengur meirihluta á þinginu. Í kjölfarið hefur sú spurning vaknað hvort forsætisráðherrann sé fær um að móta ákveðna stefnu varðandi úrsögnina úr ESB.

Um helgina birtu breskir miðlar fjölda frétta um borgarastyrjöld innan ríkisstjórnarinnar en fjármálaráðherrann Philip Hammond hefur m.a. verið sakaður um að reyna að keyra Brexit á kaf.

Talsmaður May sagði í dag að hún hygðist funda með ráðherrum á morgun.

„Ríkisstjórnin verður að vera fær um að ræða stefnumótun í trúnaði og forsætisráðherrann mun áminna kollega sína um það á ríkisstjórnarfundi á morgun,“ sagði talsmaðurinn.

Sjálfur hefur Hammond viðurkennt að ráðherrar May séu ósammála um ýmsar hliðar úrsagnarinnar.

„Ég held að að mörgu leyti væri það hjálplegt ef kollegar mínir, við öll, einbeittum okkur að þeim störfum sem liggja fyrir. Ríkisstjórnin er á tíma vegna Brexit-viðræðanna,“ sagði fjármálaráðherrann í gær.

Philip Hammond og Boris Johnson hafa tekist á um Brexit ...
Philip Hammond og Boris Johnson hafa tekist á um Brexit og fleiri mál en báðir eiga sæti í ríkisstjórn Theresu May. AFP

„Fáránlegur“ reikningur

Ráðamenn í Brussel segjast aðeins munu hefja viðræður um framtíðarsamband Bretlands og ESB þegar búið er að ganga frá skilmálum Brexit, þ. á m. réttindum ríkisborgara aðildarríkja sambandsins í Bretlandi, málum er varða landamærin við Norður-Írland og útgöngureikningi Breta, sem er talinn munu nema um 10 milljörðum evra.

Fundir vikunnar eru einnig sagðir munu snúa að aðild Bretlands að Euratom, kjarnorkuöryggisstofnun ESB, og Evrópudómstólnum.

Leiðtogar Evrópusambandsins munu ákveða í október hvort nægilegur árangur hefur náðst í viðræðunum til að hefja aðrar viðræður um fríverslunarsamning milli ESB og Bretlands.

Horfurnar þóttu fremur myrkar í síðustu viku, eftir að Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, sagði að Evrópusambandið gæti „farið og flautað“ vegna upphæðar hins svokallaða útgöngureiknings.

Johnson sagðist í dag vonast til að ráðamenn Evrópu myndu fallast á „sanngjarnt“ tilboð Breta hvað varðaði réttindi ríkisborgara ESB í Bretlandi.

Hammond, sem hefur eldað grátt silfur við Johnson, sagði á sunnudag að Bretar myndu greiða þá peninga sem þeir skulduðu en sagði áðurnefnda upphæð „fáránlega“.

mbl.is

Frá Sýrlandi til Evrópu - Greinaflokkur

Bækur til sölu
Bækur til sölu Það blæðir úr morgunsárinu, tölus., áritað, Jónas E. Svafár, Spor...
fjórir stálstál-stólar nýtt áklæði.þessir gömlu góðu sími 869-2798
er með fjóra nýklædda stálstóla þessa gömlu góðu á 40,000 kr sími 869-2798...
ALLT MILLI HIMINS OG JARÐAR !!!!!!!!!!
NOTAÐ&NÝTT er ný verslun á Skemmuvegi 6 á bak við BYKO. Mikið úrval af fallegum ...
 
L edda 6017112119 i h&v
Félagsstarf
? EDDA 6017112119 I H&V; Mynd af augl...
Skipulag
Tilkynningar
Borgarbyggð Skipulagsauglýsingar Sv...
Almennt útboð mobile first
Tilboð - útboð
Almennt útboð MOBILE FIR...
Framhald
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...