Skotnir, kramdir og brenndir

Mark Sturgis, Tom Meo, Dean Finocchiaro og Jimi Tara Patrick …
Mark Sturgis, Tom Meo, Dean Finocchiaro og Jimi Tara Patrick hurfu allir í sömu vikunni. Skjáskot/CBS Philadelphia

Tveir karlmenn hafa verið ákærðir fyrir að myrða fjóra unga menn á búgarði í Pennsylvaníu. Lík allra mannanna fundust grafin við sveitabýlið í síðustu viku. Talið er að málið tengist viðskiptum með maríjúana sem hafi farið algjörlega úr böndunum. Fjórmenningarnir voru ýmist skotnir til bana eða yfir þá ekið. Þá voru lík þriggja þeirra brennd.

Málið allt hefur vakið mikinn óhug í Pennsylvaníu og eftir því sem fleiri smáatriði þess hafa komið fram í dagsljósið hefur hryllingurinn í öllum sínum óhugnaði verið afhjúpaður.

Tíu dagar liðu frá því að fyrsti maðurinn hvarf sporlaust og þar til mennirnir tveir voru ákærðir.

Þann 5. júlí hvarf fyrsti maðurinn. Tveimur dögum síðar hurfu þrír til viðbótar. Á föstudag voru svo tveir frændur ákærðir fyrir morðin sem og aðra glæpi en þá höfðu lík fjórmenninganna fundist sundurskorin og grafin á búgarðinum í Bucks-sýslu skammt frá Fíladelfíu.

Fréttamiðlar vestanhafs hafa fjallað ítarlega um málið um helgina. Þar er atburðarásin rakin frá degi til dags.

Dagur 1.

Jimi Patrick var nítján ára háskólanemi. Hann bjó með afa sínum og ömmu. Hann fór að heiman að kvöldi 5. júlí til fundar við Cosmo DiNardo í þeim tilgangi að kaupa marijúana. DiNardo er tvítugur og hefur glímt við alvarleg geðræn veikindi að sögn saksóknara í Bucks-sýslu. Fyrir ári var hann lagður sjálfviljugur inn á geðsjúkrahús til meðferðar. Hann hefur oftsinnis komið við sögu lögreglunnar síðustu ár og í febrúar var hann handtekinn fyrir að hafa skotvopn í fórum sínum. Hann hafði ekki heimild til að eiga vopn vegna veikinda sinna að sögn lögreglunnar.

Hann var ákærður vegna vopnaeignarinnar en sú ákæra var látin niðurfalla í maí. Saksóknarinn vildi hins vegar ákæra hann á nýjan leik og tveimur vikum áður en piltarnir fóru að hverfa hafði hann beðið lögregluna um að handtaka hann. Það var hins vegar ekki gert fyrr en síðasta mánudag eftir að mennirnir hurfu. Foreldrar DiNardos áttu búgarðinn sem líkin fundust á.

Að kvöldi 5. júlí sótti DiNardo Patrick skammt frá heimili afa hans og ömmu og var ferðinni heitið að búgarði foreldra DiNardos. Hann fór með Patrick á afvikinn stað á landareign foreldra sinna og þar áttu fíkniefnaviðskiptin að fara fram. Patrick var hins vegar ekki með nægilegt fé á sér til viðskiptanna og bauð DiNardo honum þá að kaupa skammbyssu fyrir þá peninga sem hann var með. Í yfirheyrslu yfir DiNardo lýsti hann þessu svona og sagði að hann hefði rétt Patrick byssuna og skotið  hann svo til bana með riffli sem hann hafði meðferðis. Hann hafi svo grafið holu og sett lík Patricks þar ofan í.

Dagur 2.

Richard Patrick tilkynnir um hvarf barnabarns síns.

Dagur 3.

Lögreglan lýsir eftir Patrick. Hann mætti ekki í vinnuna á veitingastað. Á meðan á þessu stóð var DiNardo að koma á tveimur öðrum fundum við væntanlega kaupendur marijúana. Hann samþykkir fyrst að hitta Dean Finocchiaro sem var nítján ára. Áður en þessi fundur fer fram sækir DiNardo frænda sinn, Sean Kratz. Sá hefur einnig oftsinnis komið við sögu lögreglunnar, m.a. vegna innbrota og rána.

Í sameiningu ákveða þeir að í stað þess að selja Finocchiaro fíkniefnin skyldu þeir ræna hann. Þeir voru báðir vopnaðir byssum.

Þeir aka saman að heimili Finocchiaro, sækja hann og aka með honum að búgarðinum. Hann var svo skotinn til bana í hlöðu á landareigninni. Frændunum kemur ekki saman um hvor skaut hann fyrst en talið er að þeir hafi báðir hleypt af byssum sínum. Þeir vöfðu svo líkið inn í tjörupappa og settu það í járntank sem DiNardo kallaði „Svínaristina“ við yfirheyrslu hjá lögreglu.

Seinna þennan sama dag ákveður DiNardo að selja Thomas Meo, 21 árs gömlum, marijúana. Hann hittir Meo sem er þá með vini sínum og samstarfsmanni, Mark Sturgis sem var 22 ára. Vinirnir eltu bíl DiNardos að búgarðinum og styðja gögn úr eftirlitsmyndavélum þá frásögn DiNardos.

DiNardo fylgdi svo tvímenningunum á afvikinn stað á landareigninni og þar hittu þeir Kratz sem hafði beðið þeirra. DiNardo skaut svo Meo í bakið er hann steig út úr bílnum. Sturgis reyndi þá að leggja á flótta. DiNardo skaut hann þá tiil bana. Meo var hins vegar ekki látinn og DiNardo átti ekki fleiri skot í byssu sinni. Hann ákvað því að aka yfir piltinn og kramdi hann þannig til dauða, að því er fram kemur í ákæru lögreglunnar.

DiNardo fór svo með lík þeirra í járntankinn. Hann helti bensíni  ofan í tankinn og kveikti í, að sögn lögreglunnar.

Frændurnir fóru því næst af búgarðinum. Líkin þrjú voru þá enn í tankinum.

Er Finocchiaro mætti ekki til vinnu um kvöldið tilkynnti móðir hans um hvarfið til lögreglu.

Dagur 4.

Er Meo og Sturgis mættu ekki til vinnu að morgni fór móðir Meos að hafa áhyggjur og tilkynnti um hvarf sonar síns.

Þennan dag snéru frændurnir Kratz og DiNardo aftur á búgarðinn og grófu stóra holu. Í hana settu þeir járntankinn en inni í honum voru lík mannanna þriggja. Um kvöldið hringdi Dinardo í vin sinn og bauð honum bíl eins þremenninganna til sölu, að því er fram kemur í ákæru.

Dagur 5.

Foreldrar Sturgis tilkynna lögreglu um hvar hans. Lögreglan fann bíl hans um kílómetra frá þeim stað þar sem hann hafði verið drepinn. Nokkru síðar fann lögreglan svo bíl Meos í bílskúr á búgarðinum. Sjúkrapúði með sprautum sem Meo þurfti að nota við sykursýki lá óhreyfður í bílnum. Foreldrar hans sögðu lögreglu að Meo myndi aldrei skilja púðann eftir þar sem hann væri mjög háður lyfinu vegna veikinda sinna.

Lögreglan yfirheyrði DiNardo vegna hvarfs Finocchiaro. Hann sagði lögreglunni að hann hefði vissulega sótt piltinn að  heimili sínu en Finocchiaro hefði beðið sig að aka til Langhorne þar sem hann ætlaði að kaupa kókaín. DiNardo sagðist ekki hafa viljað taka þátt í þessu, beðið Finocchiaro að yfirgefa bílinn. Svo hafi hann farið að veiða.

Síðdegis þennan dag hefur vinur DiNardos samband við lögregluna og segir henni að Dinardo hafi reynt að selja sér bíl.

Dagur 6.

Fjórir ungir menn voru horfnir og lögreglan setti meiri kraft í rannsóknina. Tugir lögreglumanna frá mörgum embættum komu að rannsókninni. Þá voru leitarhundar einnig notaðir. Leitað var á nokkrum stöðum en merki frá farsíma eins mannanna leiddi lögregluna að býli DiNardos. Upphófst mikil leit á svæðinu og vonaði lögreglan að finna mennina á lífi.

Síðar þennan dag handtók lögreglan DiNardo vegna vopnalagabrotsins eins og saksóknari hafði beðið um tveimur vikum fyrr.

Dagur 7.

Faðir DiNardo greiddi tryggingagjald til að leysa son sinn úr gæsluvarðhaldi. Leit á búgarðinum hélt áfram. Saksóknarinn sagði frá því þennan dag að DiNardo hefði verið handtekinn en vildi ekki tengja hann þá beinlínis við hvarf mannanna.

Dagur 8.

Lögreglan segist hafa fundið sönnunargögn sem tengist hvarfi mannanna á búgarðinum. Ákveðið er að handtaka DiNardo aftur og í þetta sinn fyrir að stela bíl Meos og reyna að selja hann. Dómarinn hækkaði tryggingagjaldið verulega en ekki kom til þess að hægt væri að leysa hann úr haldi því skömmu síðar fannst fyrsta líkið á búgarðinum, lík Finocchiaros. Þá fundust einnig aðrar líkamsleifar. Síðar kom í ljós að þær voru af Meo og Sturgis.

Saksóknarinn hélt blaðamannafund um miðnætti og sagði frá líkfundinum. Hann sagði líkin þrjú hafa fundist á sama stað. „Þetta er morð, það er alveg á hreinu,“ sagði hann.

Dagur 9.

Lögreglan yfirheyrði DiNardo í annað sinn. Við þá yfirheyrslu játaði hann aðild sína að morðunum og sagði Kratz frænda sinn einnig hafa tekið þátt. Hann lét allt flakka og sagði frá morðunum í ítarlegum smáatriðum.

Hann sagði svo lögreglu frá því hvar lík Patricks væri að finna. Saksóknari er sagður hafa lofað að hlífa honum við dauðadómi ef hann segði frá hvar líkið væri að finna.

Lögreglan yfirheyrði Kratz einnig. Hann sagðist ekki hafa skotið neinn en segist hafa verið viðstaddur þrjú morðanna.

Dagur 10.

Lögreglan ákærði mennina tvo, DiNardo og Kratz, fyrir morð, rán og margt fleira. DiNardo er ákærður fyrir öll morðin en Kratz fyrir þrjú. Þeir eru nú í gæsluvarðhaldi og verður ekki sleppt gegn tryggingu.

Greinin er byggð á fréttum CNN, BBC, Washington Post og New York Times. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert