Stal hjólinu til baka

Bresk kona sem lenti í því að hjólinu hennar var stolið stal hjólinu til baka eftir að hún sá það auglýst á Facebook. Þóttist hún ætla að kaupa hjólið aftur en hugðist aldrei borga fyrir það. 

Eftir að hafa fundið hjólið á sölusíðu á Facebook skipulagði hún fund við seljandann. Hún bað lögregluna að koma með sér til þess að handtaka þjófinn en lögregla neitaði að taka þátt í athæfinu. 

Þegar hún kom á staðinn lét hún eins og hún hefði áhuga á hjólinu og spurði alls kyns spurninga. „Ég sagði að hnakkurinn væri of hár og spurði hvort ég mætti prófa það,“ sagði hin 30 ára gamla Jenni Morton-Humphreys í viðtali sem birtist í The Telegraph

„Ég passaði mig á því að ég væri ekki með neitt á mér, engar eignir, fyrir utan það sem ég hélt á í höndunum, sem voru pakki af sígarettum og lyklar. Ég rétti manninum hlutina og sagði honum að geyma þá á meðan.“

Seljandinn samþykkti að hún mætti prófa hjólið en þegar Morton-Humphreys var komin á það hjólaði hún bara í burtu.

Búið var að snyrta hjólið fyrir söluna og laga framljósið, eigandanum til mikillar ánægju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert