„Þú myrtir dóttur mína!“

Andreas Erazo hefur verið ákærður fyrir morðið á Abbiegail Smith.
Andreas Erazo hefur verið ákærður fyrir morðið á Abbiegail Smith. Skjáskot

Ungur maður hefur verið ákærður fyrir morðið á 11 ára gamalli nágrannastúlku sinni sem fannst látin nálægt heimili sínu í Keansburg í New Jersey í Bandaríkjunum í síðustu viku. Er honum gefið að sök að hafa stungið stúlkuna til bana.

Hinn 18 ára gamli Andreas Erazo mætti fyrir dómara á föstudag, en hann er ákærður fyrir morð af fyrstu gráðu og brot á vopnalögum. Bjó hann á hæðinni fyrir ofan Abbiegail Smith, en ekki hefur komið fram hvort hann hafi þekkt fórnarlamb sitt.

Fjölskylda stúlkunnar mætti í dómsalinn, og móðir stúlkunnar hrópaði á Erazo:

„Þú myrtir dóttur mína! Ég vona að þú rotnir í fangelsi. Mína einu sönnu dóttur. Þú lítur í burtu frá mér. Þú verður að rotna í fangelsi! Þú getur ekki einu sinni horft á okkur!“ 

Erazo mun næst mæta fyrir dómara á miðvikudag.

Abbiegail sást síðast á heimili sínu rétt fyrir klukkan 8 á miðvikudagskvöld. Klukkutíma síðar hafði móðir hennar tilkynnt um hvarf hennar. Hún fannst svo látin á fimmtudagsmorgun. 

Lögregla hefur ekki gefið upp hvort talið sé að Abbiegail hafi verið beitt kynferðisofbeldi áður en hún var myrt. 

Erazo hefur aldrei fyrr komist í kast við lögin.

Frétt CBS fréttastofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert