Hættið að rífast, það er ég eða Corbyn

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði þingmönnum flokksins að fara í …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði þingmönnum flokksins að fara í almennilegt sumarfrí og koma svo aftur tilbúnir að takast á við alvöruna. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, sagði þingmönnum flokksins að hætta öllu baktali. Annars ættu þeir á hættu að Jermemy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, komist til valda.

Fréttastofa Sky fjallar um málið. Eftir tilraun May til að styrkja umboð sitt til að semja um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu mistókst hafa sumir af ráðherrum flokksins verið ófeimnir við að tjá sig opinberlega um andstöðu sína við Brexit og útgjöld ríkisins. Segir Sky ráðherrana búast við að dagar May í embætti verði fljótt taldir.

Í veislu á vegum þingflokksins sagði May þingmönnum að það eigi ekki að vera „neitt baktal, ekkert rifrildi“.

„Valið stendur um mig eða Jeremy Corbyn – og enginn vill hann,“ sagði May við þingmenn að því er Daily Mail hefur eftir heimildamanni. „Farið nú og njótið almennilega sumarfrís og komið svo aftur tilbúnir að takast á við alvöruna.“

Þá varaði hún ráðherra við því að efni ríkisráðsfunda eigi ekki að leka í fjölmiðla og öllum deilum fyrir opnum tjöldum verði að ljúka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert