Hafnar fréttum af leynilegum kvöldverði

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti á formlegum fundi …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti á formlegum fundi sínum í Hamborg. Trump segist hafa þrýst á Pútín varðandi meint afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti áttu í tvígang fund á G20-leiðtogafundinum í Hamborg fyrr í þessum mánuði. Eru forsetarnir sagðir hafa átt óformlegan fund að loknum formlegum fundi sínum.

Talsmenn Hvíta hússins hafa ekki látið uppi um hvað forsetarnir ræddu, en Trump hefur þegar hafnað öllum fréttum af „leynilegu kvöldverðarboði“ sem „fölskum fréttum“.

Samskipti þeirra Trumps og Pútíns eru undir smásjánni vegna gruns um afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum á síðasta ári, en bandaríska leyniþjónustan telur Rússa hafa aðstoðað Trump við að hafa sigur í kosningunum.

Síðari fundur leiðtoganna er að sögn BBC sagður hafa átt sér stað í kvöldverðarboði leiðtoga G20-ríkjanna og eru forsetarnir sagðir hafa fundað einir, auk túlks Pútíns. Bandarískir fjölmiðar segja fundinn hafa varað í um klukkustund.

Stuttar samræður, ekki fundur

Hvíta húsið staðfesti að forsetarnir hefðu átt í stuttum samræðum, ekki „annan fund“ eftir að bandarískir fjölmiðlar greindu frá málinu. Bandarískur túlkur hefði ekki verið viðstaddur fundinn af því að sá túlkur sem var viðstaddur kvöldverðarboðið talaði ekki rússnesku.

Ian Bremmer, forstjóri Eurasia Group, greindi fyrst frá fundi forsetanna í fréttabréfi til viðskiptavina sinna og sagði hann þá Pútín og Trump hafa verið líflega í einkasamræðum sínum og að fjarvera bandarísks túlks hefði vakið eftirtekt annarra gesta.  

Líkt og oft áður þá tjáði Trump sig um málið á Twitter. „Falsfréttasagan um leynilegan kvöldverð með Pútín er „sjúk“,“ sagði Trump.

Forsetinn hefur sagst hafa ítrekað þrýst á Pútín varðandi ásakanir um afskipti Rússa af kosningunum á formlegum fundi þeirra og að Pútín hafi harðlega neitað.

Þá hefur verið greint frá því að Trump muni tilnefna Jon Huntsman, fyrrverandi ríkisstjóra Utah, sem næsta sendiherra Bandaríkjanna í Rússlandi. Huntsman hefur þegar gegnt embætti sendiherra í Kína og Singapore, en þingið þarf þó að staðfesta þessa nýju ráðningu og er líklegt að grunsemdir í garð Rússa muni leika stórt hlutverk í meðförum þingsins á skipan Huntsman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert