Heyrði háan hvell og skaut Justine

Justine Damond gekk út að lögreglubílnum til að ræða við …
Justine Damond gekk út að lögreglubílnum til að ræða við þá um mögulegan glæp sem hún hafði tilkynnt um.

Lögreglumanninum sem skaut Justine Damond hafði brugðið við háan hvell skömmu áður en Damond kom að lögreglubílnum.

Damond, sem var áströlsk en búsett í Bandaríkjunum, hafði hringt í lögreglu til að tilkynna mögulega kynferðisárás. Hún var skotin til bana af lögreglumanninum Mohammed Noor er hún kom upp að lögreglubílnum.

BBC segir lögreglumann heyrast nefna á upptöku af lögreglurásinni að kveikt hafi verið í flugeldum skammt frá þar sem Damond var skotin.

Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, hefur krafið bandarísk yfirvöld svara vegna drápsins á Damond. „Þetta er hræðilegt dráp og já, við krefjumst svara fyrir fjölskyldu hennar,“ sagði Turnbull í viðtali við ástralska sjónvarpsstöð.

Justine var á náttfötunum er hún nálgaðist ökumann lögreglubílsins til að ræða við lögreglumennina er þeir komu á vettvang. Noor, sem sat í farþegasæti bílsins, skaut hana þá með byssu sinni í gegnum gluggann á bílstjórahlið bílsins.

Noor hefur neitað að ræða við rannsakendur og bandarísk yfirvöld segjast ekki geta neytt hann til að senda frá sér yfirlýsingu um málið. BCA-rannsóknarstofnunin, sem fer með rannsókn málsins, segir Matthew Harrity, lögreglumanninn sem var í bílnum með Noor, hafa sagt rannsakendum að hár hvellur hefði heyrst rétt áður en Damond kom að bílnum.

Lögreglumennirnir voru hvorugur með kveikt á myndavélabúnaði sínum, né heldur á myndavél í mælaborði bílsins líkt og þeim ber að gera. Báðir lögreglumennirnir hafa verið leystir frá störfum á meðan rannsókn fer fram.

Janee Harteau, lögreglustjóri Minneapolis, hefur sagt dauða Damond vera hörmulegan og hefur farið fram á að hann verði rannsakaður strax til að veita gagnsæi. Þá hefur Mike Freeman, saksóknari Hennepin-sýslu, sagst munu ákveða sjálfur hvort Noor verði ákærður í stað þess að ákvörðunin verði lögð fyrir kviðdóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert