Trump og Kushner fyrir þingnefnd

Donald Trump yngri, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Jared Kushner.
Donald Trump yngri, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Jared Kushner. AFP

Donald Trump yngri, elsti sonur Donald Trumps Bandaríkjaforseta, og Jared Kushner, tengdasonur forsetans, munu sitja fyrir svörum hjá einni af nefndum Bandaríkjaþings í næstu viku vegna rannsóknar á meintum tengslum kosningaframboðs Trumps við rússneska ráðamenn.

Auk þeirra Trumps og Kushner, þá mun Paul Manafort, fyrrverandi kosningaráðgjafi Trumps, einnig bera vitni en allir þrír liggja undir grun um að hafa haft samskipti við rússneska embættismenn.

Þetta tilkynnti nefndin, sem rannsakar meint afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum, í gærkvöldi. Segir BBC þá Trump yngri og Manafort koma fyrir þingnefndina þann 26. júlí en Kushner sitja fyrir svörum 24. júlí.

Allir þrír eru sagður hafa setið fund með rússneskum lögfræðingi sem er sagður hafa heitið þeim upplýsingum sem væru skaðlegar Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trumps. Forsetinn hefur neitað öllum slíkum ásökunum.

Ósanngjarnt af Sessions

Trump viðurkenndi nýlega í viðtali við New York Times að hann hefði ekki valið Jeff Sessions í embætti dómsmálaráðherra, hefði hann vitað að Sessions myndi segja sig frá rannsókninni vegna hagsmunaárekstrar. Sagði Trump þessa ákvörðun Sessions vera „mjög ósanngjarna“.

„Sessions hefði aldrei átt að segja sig frá þessu og ef hann ætlaði að gera það þá hefði hann átt að láta mig vita og ég hefði valið einhvern annan,“ sagði Trump.

Ráðherrann sagði sig frá því að hafa yfirumsjón með rannsókninni í mars, eftir að upp kom að hann hafði látið hjá líða að greina þinginu frá því við skipan sína í embætti að hann hefði hitt sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Ræddi gamanmál og ættleiðingar við Pútín

Trump ræddi einnig í viðtalinu um samræður sínar og Vladimír Pútíns Rússlandsforseta á G20 leiðtogafundinum í Hamborg fyrr í mánuðinum.

Sagði hann óformlegar samræður þeirra hafa staðið yfir í um það bil korter og að þeir hefðu að mestu rætt gamanmál, þó ættleiðingar hefði einnig borið á góma. Rússnesks stjórnvöld bönnuðu ættleiðingar bandarískra ríkisborgara á rússneskum munaðarleysingjum vegna aðgerða bandarískra stjórnvalda gegn rússneskum embættismönnum, sem þeir sökuðu um mannréttindabrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert