Justine átti ekki að deyja

Pappaspjald sem á stendur réttlæti fyrir Justine stendur meðal blóma …
Pappaspjald sem á stendur réttlæti fyrir Justine stendur meðal blóma sem fólk hefur komið með í minningu Damonds. AFP

Justine Damond, ástralska konan sem lögregla í Minneapolis skaut til bana er hún nálgaðist lögreglubíl, hefði ekki átt að vera skotin. Þetta segir Janee Harteau, lögreglustjóri Minneapolis.

Justine, sem var búsett í Bandaríkjunum, hafði hringt í lögreglu vegna gruns um kynferðisglæp og gekk til móts við lögreglubílinn er hann kom á vettvang.

BBC hefur eftir lögfræðingi fjölskyldu Damond að það sé „fáránlegt“ að gefa í skyn að lögreglumennirnir tveir sem í bílnum voru hafi óttast fyrirsát.

Harteau sagði drápið vera „gjörðir og dómgreind eins einstaklings“.

Mohamed Noor, lögreglumaðurinn sem skaut Damond, hefur neitað að ræða við rannsakendur sem nú skoða hvað hafi gerst. „Þessi viðbrögð ganga gegn því hver við erum, hver þjálfun okkar er og hverju við búumst við af lögreglumönnum okkar,“ sagði Harteau um drápið á Damond á fundi með fréttamönnum.

Kvaðst hún vilja fullvissa fjölskyldu Damond um að hún muni gera allt sem í sínu valdi stendur til að tryggja að réttlæti nái fram að ganga.

Ekki var kveikt á myndavélum sem lögreglumönnunum ber að vera með á búningum sínum, né heldur var kveikt á myndavél í mælaborði og því eru ekki til neinar myndbandsupptökur af atvikinu.

Harteau sagði að þeir Noor og Matthew Harrity, hinn lögreglumaðurinn í bílnum, hefðu átt að hafa kveikt á myndavélunum. „Lögreglumaður á að vera með kveikt á þeim og þetta er eitt af því sem við erum að rannsaka,“ sagði hún.

Fred Bruno, lögfræðingur Harrity, hefur sagt rökrétt að telja að lögreglumaður í þessum aðstæðum hafi áhyggjur af fyrirsát.

Robert Bennett, lögfræðingur fjölskyldu Damond, segir engum hafa stafað ógn af henni er hún nálgaðist bílinn á náttfötunum.

„Ég tel óttann við fyrirsát vera fáránlegan. Þetta er upplýsingafölsun og byggist ekki á neinum staðreyndum,“ segir Bennet. „Hún var augljóslega ekki vopnuð. Það stafaði engum ógn af henni og hún hafði enga ástæðu til að telja að hún yrði talin ógnandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert