Óttast hungursneyð í Norður-Kóreu

Bændur að störfum á hrísgrjónaökrum í Norður-Kóreu. Þurrkatíðin undanfarna mánuði …
Bændur að störfum á hrísgrjónaökrum í Norður-Kóreu. Þurrkatíðin undanfarna mánuði er talin geta leitt til uppskerubrests. AFP

Verulegur matvælaskortur blasir nú við íbúum Norður-Kóreu, eftir eina verstu þurrkatíð sem landið hefur orðið fyrir í ein 15 ár. Í yfirlýsingu frá Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) er hvatt til matvælainnflutnings til landsins svo börn muni ekki svelta.

Lítið hefur rignt í Norður-Kóreu fyrri hluta þessa árs, sem hefur skaðað uppskeru bænda, en vannæring var fyrir algengt vandamál hjá íbúum landsins. Vincent Martin, sendifulltrúi FAO í Kína og Norður-Kóreu, segir þurrkatíðina líklega til að draga verulega úr fæðuöryggi stórs hluta landsmanna.

Hungursneyð hefur komið upp reglulega í Norður-Kóreu síðastliðna áratugi og kostaði m.a. hundruð þúsunda manna lífið á tíunda áratug síðustu aldar.

Jafnvel þegar vel árar búa 40% íbúa landsins við vannæringu samkvæmt stöðlum Sameinuðu þjóðanna.

Verulega hefur dregið úr mataraðstoð frá öðrum ríkjum heims undanfarinn áratug, vegna deilna um kjarnorkuáætlun ráðamanna Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert