Banna ferðir til N-Kóreu í vikunni

Frá Norður-Kóreu.
Frá Norður-Kóreu. KCNA

Nú fer hver að verða síðastur Bandaríkjamanna til að heimsækja Norður-Kóreu, að minnsta kosti í bili, því ríkisstjórn Donalds Trump mun í komandi viku banna ferðalög bandarískra ríkisborgara til einræðisríkisins.

Ástæðurnar eru vaxandi spenna milli ríkjanna vegna prófana Norður-Kóreu á langdrægum eldflaugum en fyrr í mánuðinum skutu N-Kóreumenn á loft flaug sem sérfræðingar segja að nái til Alaska og Havaí.

Þá lést bandaríski námsmaðurinn Otto Warmbier eftir dvöl í fangelsi í Norður-Kóreu en hann var dæmdur til 15 ára fangelsisvistar fyrir glæpi gegn ríkinu eftir að hafa verið tekinn með áróðursskilti af hóteli í Pyongyang, höfuðborg N-Kóreu. Honum var sleppt og fluttur til Bandaríkjanna eftir að hann lenti í dái, sem dró hann að lokum til dauða. 

Langflestir ferðamenn í Norður-Kóreu eru Kínverjar, en á milli fjögur til fimm þúsund Vesturlandabúar heimsækja landið ár hvert. Þar af eru um 20 prósent Bandaríkjamenn. Mál Warmbier hefur þó dregið verulega úr áhuga Bandaríkjamanna á að heimsækja landið en Simon Cockerell hjá Koryo Tours, stærsta söluaðila ferða til Norður-Kóreu, segir að ástæðuna megi rekja til þess að fólk viti að allir geri mistök og það óttist að lenda sjálft í hryllilegum afleiðingum þess að gera einhver mistök í landinu og hljóta fyrir það dóm.

Hann er þó ósammála bandarískum stjórnvöldum um að banna ferðir til landsins. Ferðalög Bandaríkjamanna til Norður-Kóreu séu eina tenging Bandaríkjanna við almenna borgara í landinu þar sem allur áróður um landið er neikvæður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert