„Ég vil bara fara heim“ segir Linda W.

Stúlkan, sem sögð er vera Linda W., hefur sést á …
Stúlkan, sem sögð er vera Linda W., hefur sést á myndum á samfélagsmiðlum í fylgd íraskra hermanna. Skjáskot

Þýska táningsstúlkan Linda W., sem strauk að heiman til að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams, sér nú eftir þeirri ákvörðun sinni og þráir ekkert heitar en að komast heim til fjölskyldu sinnar að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Þýska tímaritið Der Spiegel greindi frá því á laugardag að fjórar þýskar konur sem gengu til liðs við Ríki íslams, m.a. 16 ára stúlka frá smábænum Pulsnitz, sætu í írösku fangelsi eftir fall Mósúlborgar.

Lorenz Haase, saksóknari í Dresden, staðfesti að stúlkan sem hefur aðeins verið nefnd sem Linda W. hefði fundist í Írak og að hún nyti nú aðstoðar þýska sendiráðsins í landinu. Hann vildi þó ekki tjá sig um aðstæður hennar.

Þýsku fjölmiðlarnir NDR, WDR og Süddeutsche Zeitung segjast hins vegar hafa náð viðtali við Lindu W. á sjúkrahúsi herstöðvarinnar í Bagdad og að hún hafi sagst vilja fara heim.

„Ég vil bara komast í burtu,“ var haft eftir henni. „Ég vil komast burt frá stríðinu, frá öllum þessum vopnum og hávaðanum. Mig langar bara heim til fjölskyldu minnar.“

Með skotsár á læri eftir þyrluárás

Linda W. á að hafa sagt fjölmiðlunum að hún sæi eftir að hafa gengið til liðs við Ríki íslams og að hún óskaði þess að verða framseld til Þýskalands þar sem hún myndi sýna yfirvöldum fullan samstarfsvilja.

Er hún sögð hafa verið með skotsár á vinstra læri og sár á hægra hné sem hún sagðist hafa hlotið í þyrluárás.

Saksóknari í Þýskalandi greindi í síðustu viku frá því að verið væri að kanna fregnir af því að 16 ára þýsk stúlka væri nú til rannsóknar hjá íröskum yfirvöldum eftir að hún var tekin ásamt fjórum öðrum konum í þeim hluta Mósúl sem var á valdi Ríkis íslams.

Voru þýsk yfirvöld þá sögð vera að kanna hvort um væri að ræða stúlku sem hvarf síðasta sumar frá Pulsnitz. Til­kynnt var um hvarf Lindu W. sem breska dagblaðið Telegraph segir heita fullu nafni Lindu Wenzel fyr­ir ári síðan. Hún hafði búið með móður sinni og stjúp­föður í litla bæn­um Pulsnitz. Ólst hún upp á kristnu heim­ili, en sýndi ekki áhuga á trú þar til nokkr­um mánuðum fyr­ir hvarfið. Þá sagði hún for­eldr­um sín­um að hún hefði áhuga á íslamstrú.

Vin­ir henn­ar frá heima­bæn­um segja hana hafa snú­ist yfir til íslamstrú­ar um þetta leyti eft­ir að haft hafði verið sam­band við hana í gegn­um spjall­rás­ir. Í kjöl­farið fór hún að læra ar­ab­ísku, taka kór­an­inn með sér í skól­ann, ganga í íhalds­söm­um klæðnaði og verða mjög áhuga­söm um íslamstrú.

Er hún sögð hafa orðið ást­fang­in af víga­manni og því hafi hún stungið af frá heim­ili sínu í bæn­um Pulsnitz síðasta sum­ar til að halda til Tyrk­lands þar sem þýska öryggislögreglan missti sjónar á henni þar til nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert