Iðrast síðasta símtalsins

Díana ásamt sonum sínum, Harry og Vilhjálmi.
Díana ásamt sonum sínum, Harry og Vilhjálmi.

Prinsarnir Vilhjálmur og Harry segjast hafa fengið skemmtilegt uppeldi af hálfu móður sinnar, Díönu prinsessu. Þeir segja hana hafa skilið hið raunverulega líf utan hallarmúranna og að hún hafi hvatt þá til að vera „óþæga“. Þeir sjá eftir því að síðustu samræðurnar sem þeir áttu við hana voru aðeins í formi örstutts símtals daginn sem hún lést.

Þetta kemur fram í viðtölum við prinsana í nýrri heimildarmynd ITV-sjónvarpsstöðvarinnar sem sýnd er í tilefni af því að tuttugu ár eru liðin frá því að Díana lést.

Í myndinni er birtur fjöldi ljósmynda af prinsunum með móður sinni sem margar hverjar hafa ekki áður komið fyrir almenningssjónir. Prinsarnir segja frá æskuminningum sem þeir eiga með móður sinni og einnig frá fjölbreyttu ævistarfi hennar, m.a. góðgerðarmálunum sem hún er þekktust fyrir.

Díana lést í bílslysi í París þann 31. ágúst árið 1997. Þá var Vilhjálmur fimmtán ára og Harry tólf ára.

Vilhjálmur segir það hafa verið erfitt í fyrstu að taka þátt í gerð heimildarmyndarinnar en þegar á hólminn hafi verið komið hafi það einnig verið sáluhjálp.

Prinsarnir rifja upp einstök atvik með móður sinni. Harry segir hana hafa verið mikinn húmorista og alltaf að grínast og slá á létta strengi. „Þegar ég segi fólki að hún hafi verið skemmtileg vill það að ég gefi dæmi um slíkt en allt sem ég heyri í höfði mínu er hláturinn hennar.“

Hann segir að móðir sín hafi stundum sagt: „Þú veist, þú getur verið eins óþægur og þú vilt. Bara ekki láta komast upp um þig.“

Vilhjálmur segir að hún hafi verið mjög óformleg í samskiptum sínum við sig. Hún hafi notið þess að hlæja og hafa gaman.

Vilhjálmur segir við Harry í heimildarmyndinni: Hvort sem þú trúir …
Vilhjálmur segir við Harry í heimildarmyndinni: Hvort sem þú trúir því eða ekki þá erum við báðir á þessari mynd. Úr einkasafni Harrys og Vilhjálms.

Hann segir hana hafa gaman að því að stríða sér. „Þegar ég var í skólanum þá sendi hún mér kort. Oftast hafði hún fundið kort sem voru þú veist, frekar niðurlægjandi, mjög fyndin kort. Svo skrifaði hún alltaf eitthvað fallegt inn í þau.“

Hann segist hafa falið þau og ekki þorað að opna þau fyrir framan kennara og aðra nemendur af ótta við að allur bekkurinn myndi sjá þau.

Vilhjálmur rifjar það einnig upp í myndinni að eitt sinn kom hann heim úr skólanum og þá hafði móðir hans boðið ofurfyrirsætunum Cindy Crawford, Christy Turlington og Naomi Campbell að heimili þeirra í Kensington-höll.

„Ég var líklega tólf eða þrettán ára gamall drengur sem hafði þá myndir af þessum konum uppi á vegg,“ segir hann í heimildarmyndinni sem heitir Diana, Our Mother: Her Life and Legacy.

„Ég varð eldrauður í framan og vissi ekki hvað ég ætti að segja og það kom á fát á mig og ég held að ég hafi svo gott sem dottið niður stigann á leiðinni upp í herbergið mitt. Ég var algjörlega í áfalli,“ segir hann um heimsókn ofurfyrirsætanna.

Vilhjálmur segir að síðasta samtal sitt við móður sína hafi legið þungt á sér lengi. Það hafi átt sér stað er þeir bræður voru að eiga góðar stundir með frændsystkinum sínum í Balmoral, heimili drottningar í Skotlandi. „Okkur Harry lá mikið á að kveðja hana og segja „sjáumst síðar“... ef ég hefði vitað hvað væri að fara að gerast hefði ég ekki hagað mér svona,“ segir hann. Vilhjálmur segist muna þetta stutta samtal við móður sína en vill ekki segja frekar frá því.

Harry ræddi einnig við móður sína í síma þennan örlagaríka dag. „Hún var í París en ég man ekki nákvæmlega hvað ég sagði við hana. En það sem ég man er að ég mun líklega allt mitt líf sjá eftir því hversu stutt þetta símtal var.“

Harry segist aðeins hafa grátið tvisvar sinnum vegna fráfalls móður sinnar. Annað skiptið var við jarðarför hennar árið 1997. „Svo það er mikil sorg sem enn á eftir að brjótast út.“

Vilhjálmur segist stöðugt tala um „Díönu ömmu“ við börnin sín, Georg og Karlottu. „Hún hefði elskað að vera amma, hún hefði algjörlega elskað það. Hún elskaði börn í tætlur.“

Hann segir að hún hefði þó verið algjör „plága“ í ömmuhlutverkinu. „Hún hefði verið algjör plága sem amma, algjör plága. Hún hefði komið, líklega á baðtíma, valdið uppþoti, freyðandi sápukúlur hefðu verið um allt og vatn út um allt. Svo hefði hún farið,“ segir hann í gríni.

Vilhjálmur og Harry minnast móður sinnar 20 árum eftir dauða …
Vilhjálmur og Harry minnast móður sinnar 20 árum eftir dauða hennar. skjáskot/ITV

Harry segir að í sínum augum og bróður síns hafi Díana einfaldlega verið besta mamma í heimi. „Þetta hefur verið erfitt og mun halda áfram að vera erfitt,“ segir hann um fráfall hennar.  Það líður ekki sá dagur að ég og Vilhjálmur óskum okkur ekki að hún væri hér enn og veltum fyrir okkur hvernig móðir hún væri núna og hvaða opinbera hlutverki hún myndi gegna og svo framvegis.“

Prinsarnir segjast ekki ætla að ræða jafn opinskátt um móður sína aftur. Þeir vonast til þess að fólk sjái Díönu í réttu ljósi í myndinni. „Við vonum að myndin sýni aðra hlið á henni frá sjónarhorni náinna ættingja og vina, frá þeim sem þekktu hana best og frá þeim sem er annt um að vernda minningu hennar og vilja minna fólk á þá manneskju sem hún hafði að geyma,“ segir Vilhjálmur.

Myndin verður sýnd á ITV á morgun, mánudag.

Frétt BBC um myndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert