Kólera breiðist út á ógnarhraða

Vannært barn fær aðhlynningu á heilsugæslustöð hjálparsamtakanna Læknar án landamæra …
Vannært barn fær aðhlynningu á heilsugæslustöð hjálparsamtakanna Læknar án landamæra í Jemen. AFP

Óttast er að meira en 600 þúsund manns muni smitast af kóleru í Jemen í ár. Þetta segir alþjóðanefnd Rauða krossins. Heilbrigðiskerfi landsins er í molum eftir áralangt blóðugt borgarastríð.

Reiknað er með að einn af hverjum 45 íbúum landsins verði smitaður af kóleru í desember. Innviðir Jemen eru í miklum lamasessi. Vegir og brýr hafa verið eyðilagðar svo samgöngur eru erfiðar og oft nánast ómögulegar. Þá eru skólar landsins flestir lokaðir og sömuleiðis hefur fjölda sjúkrahúsa verið lokað. 

Þegar hafa um 370 þúsund manns veikst af kóleru og 1.800 látist síðan seint í apríl. Þetta er annar kólerufaraldurinn sem brýst út í Jemen á innan við ári.

Þúsundir hafa látist og milljónir eru á vergangi í landinu vegna stríðsástandsins. Stjórnarherinn nýtur stuðnings Sádi-Araba í hernaði sínum en uppreisnarmenn Húta, minnihlutahóps í norðurhluta landsins, eru sagðir njóta stuðnings Írana. Það hafa þeir þó aldrei staðfest.

Mjög erfitt og flókið er að koma hjálpargögnum, svo sem matvælum og lyfjum, til sárþjáðra og hungraðra íbúanna. Höfnum við Rauðahafið hefur verið lokað.

Sádi-Arabar gengu til liðs við stjórnarher Jemen árið 2015. Síðan þá hafa yfir 8.000 látist og meira en 44.500 hafa særst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert