Læknum Charlies hótað lífláti

Mótmælendur fyrir utan dómshús í London í síðustu viku. Almenningur …
Mótmælendur fyrir utan dómshús í London í síðustu viku. Almenningur hefur fylgst náið með framvindu málsins fyrir dómstólum og í fjölmiðlum. AFP

Starfsfólk sjúkrahússins þar sem breski drengurinn Charlie Gard dvelur og fær meðferð hefur fengið morðhótanir vegna umönnunarinnar. Gard er 11 mánaða og er með banvænan hrörnunarsjúkdóm. Hann dvelur á Great Ormond Street-sjúkrahúsinu í London.

Talsmenn sjúkrahússins segja að lögreglan hafi verið látin vita af því að starfsfólk hafi verið áreitt og því sýnd ólíðandi hegðun.

Mál Charlies litla hefur vakið mikla athygli víða um heim en deilt er um hvort að slökkva eigi á öndunarvélum sem halda lífi í drengnum.

Foreldrar hans, Connie Yates og Chris Gard, segjast ekki líða svona áreiti og árásir og segjast sjálf hafa fengið ljóta og særandi gagnrýni.

Connie Yates og Chris Gard, foreldrar Charlies Gard.
Connie Yates og Chris Gard, foreldrar Charlies Gard. AFP

Jeremy Hunt heilbrigðisráðherra sagði á Twitter í gær að þó að mál Charlies væri sorglegt, þá væri þessi hegðun fólks með öllu óásættanleg.

Charlie fæddist þann 4. ágúst í fyrra. Hann er með erfðasjúkdóm sem veldur óafturkræfum heilaskemmdum og því að vöðvar hans rýrna hratt. Foreldrarnir vildu fá að flytja hann til Bandaríkjanna til að gangast undir tilraunameðferð við sjúkdómnum.

Læknar sjúkrahússins í London telja hins vegar að það besta fyrir Charlie væri að leyfa honum að deyja. Foreldrarnir hafa ítrekað tapað dómsmálum síðustu vikur til að fá þeirri ákvörðun læknanna hnekkt og að koma honum til meðferðar í Bandaríkjunum.

Taugalæknir mun meta ástandið

Í nýjasta anga dómsmálsins verður lagður fram vitnisburður frá bandarískum taugalækni sem heimsótti Charlie á sjúkrahúsið og hann beðinn að skera úr um það hvort að flytja eigi Charlie til meðferðarinnar í Bandaríkjunum. 

Meðferðin sem um ræðir er enn á tilraunastigi og segja bandarískir læknar að hún gæti bætt heilsu Charlies um 10%.

Mary MacLeod, stjórnarformaður sjúkrahússins í London, segir að mál Charlies sé átakanlegt og að hún hafi fullan skilning á tilfinningum fólks hvað það varðar. Hins vegar hafi starfsmönnum sjúkrahússins verið ítrekað sýnd fjandsamleg hegðun. Hún segir að hótanir og áreiti hafi borist í gegnum netið en einnig hafi starfsfólkið orðið fyrir slíku úti á götu.

„Þúsundir hatursfullra skilaboða hafa verið send læknum og hjúkrunarfræðingum sem vinna við það að hlúa að veikum börnum.“ Segir hún að meðal skilaboðanna séu morðhótanir.

Þá segir hún að fjölskyldur barna á sjúkrahúsinu hafi orðið fyrir áreiti af ýmsum toga, m.a. innan veggja spítalans. 

Foreldrar Charlies sendu frá sér yfirlýsingu í kjölfar þessara orða stjórnarformannsins og sögðust ekki líða hótanir gagnvart starfsfólki eða öðrum sem tengjast syni þeirra. „Við verðum einnig fyrir áreiti og höfum daglega fengið hatursfull og særandi skilaboð.“

Dómsmáli um örlög Charlies verður áfram haldið á efra dómsstigi á morgun, mánudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert