Þurftu að bjarga sjálfum sér

Þrýstiloftsbátar eins og þessi á myndinni eru notaðir á fenjasvæðum.
Þrýstiloftsbátar eins og þessi á myndinni eru notaðir á fenjasvæðum. Af Wikipedia

Stundum þurfa björgunarsveitarmenn að bjarga sjálfum sér. Það gerðist í fenjum Hilton Head-eyju í Suður-Karólínu á fimmtudag er björgunarmenn voru að reyna að koma tveimur kajakræðurum til hjálpar.

Starfsmenn á hóteli kölluðu eftir aðstoð fyrir ræðarana á fimmtudagskvöldið. Var björgunarlið frá Beaufort-vatnabjörgunarsveitinni sent á vettvang á þrýstiloftsbáti sem er með flatan botn en knúinn nokkurs konar flugvélarhreyfli. Er bátur þeirra nálgaðist kajakræðarana festist hann hins vegar í háu fenjagrasinu.

Þurftu björgunarmennirnir að bíða í um hálftíma eftir að flæddi að svo að þeir gætu komist aftur á stað. Kajakræðararnir höfðu lent í því sama, voru strandaðir á þurru landi er undan þeim fjaraði. Þeir festust í leðju en sluppu ómeiddir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert