Sextán tíma þrumuveður og demba

Hlutar bæjarins eru í rúst eftir að áin Storelva braut …
Hlutar bæjarins eru í rúst eftir að áin Storelva braut sér nýja farvegi gegnum Utvik. Skjáskot/Firda Bente Kjøllesdal

Lögregla og björgunarfólk í bænum Utvik í fylkinu Sogn og Fjordane á vesturströnd Noregs unnu að því hörðum höndum í nótt og langt fram á daginn í dag að rýma íbúðarhús í miðbænum, það er að segja þau sem ekki flutu þegar um úti á bæjarfirðinum Nordfjord.

Eftir rúmlega 16 klukkustundir af hellirigningu með þrumuveðri, þar sem áin Storelva braut sér nýja farvegi gegnum Utvik, eru stórir hlutar bæjarins í rúst, hvorki er þar rafmagn né neysluvatn og sundurrifin híbýli bæjarbúa liggja eins og hráviði um allar jarðir.

E6-brautin lokuð í átta klukkustundir

„Í gær skein sól hér í heiði en núna er öll byggðin hamfarasvæði,“ segir Per Inge Verlo, íbúi við árósinn, í viðtalið við norska ríkisútvarpið NRK. „Byggingarvöruverslunin okkar er farin og eins íþróttavöllurinn.“ Verlo er ekki á leiðinni heim á næstunni en vatn nær nú upp í loft neðri hæðar húss hans sem óvíst er hvort verði bjargað.

Ekki er hægt að aka gegnum Utvik eins og staðan er því vatnavextir voru slíkir að áin skolaði burt steinsteyptri brú á Ríkisvegi 60 sem einhvern tíma mun taka að koma upp á ný.

Hið mikla vatnsveður gærdagsins og næturinnar náði langt austur í land og urðu einnig mikil flóð í hlutum Guðbrandsdalsins og nágrennis en loka varð E6-brautinni í átta klukkustundir þegar óttast var að stífla við hlið hennar brysti vegna óhemjumikilla vatnavaxta. Leiddi þetta til mikils öngþveitis á brautinni sem nær allt frá Kirkenes í Norður-Noregi til Trelleborg í Svíþjóð, rúma 3.100 kílómetra, og fara milli 50 og 70.000 ökutæki daglega um umferðarþyngstu hluta hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert