Flugmönnum þarf að fjölga um 637 þúsund

AFP

Flugfélög munu þurfa að ráða til sín 637.000 flugmenn næstu 20 árin til að mæta aukinni eftirspurn. Þetta kemur fram í árlegri skýslu Boeing en fyrirtækið gerir nú ráð fyrir 3,6% viðbótarþörf eftir flugmönnum frá fyrra mati.

Flugfélög á Asíu-Kyrrahafssvæðinu eru sögð munu þurfa að fjölga flugmönnum um 253.000, félög í Norður-Ameríku um 117.000 flugmenn og félög í Evrópu um 106.000 flugmenn. Spáin gildir fyrir tímabilið 2017-2036.

Þá segir skýrslan að flugvirkjum þurfi að fjölga um 648.000 en þar er um að ræða 4,6% fækkun frá mati fyrra árs, vegna minni viðhaldsþarfar Boeing 737 MAX.

Boeing segir að fjölga þurfi flugþjónum um 839.000; um 308.000 á Asíu-Kyrrahafssvæðinu, 173.000 í Evrópu, 154.000 í Norður-Ameríku og 96.000 í Mið-Austurlöndum.

Margir sérfræðingar hafa varað við yfirvofandi flugmannaskorti en samkvæmt skýrslu CAE, sem sérhæfir sig í þjálfun í fluggeiranum, munu flugfélögin þurfa að ráða 255.000 flugmenn til starfa á næstu 10 árum til að anna eftirspurn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert