Heilaskaði hjá leikmönnum í 99% tilvika

Leikmenn Seattle Seahawks í bandaríska fótboltanum. Nýleg rannsókn fann merki …
Leikmenn Seattle Seahawks í bandaríska fótboltanum. Nýleg rannsókn fann merki um heilaskaða hjá leikmönnum í úrvalsdeild bandaríska fótboltans í 99% tilvika. AFP

Heilaskaði finnst hjá leikmönnum í 99% tilvika í úrvalsdeild bandaríska fótboltans. Þetta eru niðurstöður vísindamanna sem sem segja heila 110 þeirra 111 leikmanna sem þeir rannsökuðu sýna merki um hrörnunarsjúkdóm, sem þeir telja mega rekja til ítrekaðra höfuðhögga.

Rannsókn var unnin með krufningu á heilum látinna leikmanna í úrvarlsdeildinni, sem ánafnað höfðu líkama sínum til vísindarannsókna.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu merki um langvarandi heilakvilla (e. chronic traumatic encephalopathy (CTE))  í 99% tilfella hjá þeim sem spilað höfðu í atvinnudeildinni. CTE veldur einkennum á borð við minnisleysi, jafnvægisleysi, þunglyndi og vitglöpum en einkenning kunna að gera fyrst vart við sig mörgum árum eftir að leikferli íþróttamannsins lýkur.

AFP-fréttastofan segir atvinnudeild bandaríska fótboltans hafa sætt vaxandi gagnrýni á undanförnum árum vegna höfuðáverka leikmanna. Árið 2015 féllust forsvarsmenn hennar á að greiða einn milljarð bandaríkjadala í skaðabótamáli sem fyrrverandi leikmenn, sem nú þjáðust af taugakerfisvandamálum, höfðu höfðað.

Í rannsókninni voru einnig rannsakaðir heilar einstaklinga sem höfðu leikið bandarískan fótbolta í skóla og sem höfðu spilað í kanadísku fótboltadeildinni. Af þeim 202 heilum sem voru rannsakaðir, þá sýndu 87% merki um CTE, en meðaldánaraldur þeirra sem rannsakaðir voru var 66 ár.

Skýrustu einkennin var að finna hjá þeim sem spilað höfðu í úrvalsdeildinni, en einkenni CTE er ekki hægt að fullgreina nema með krufningu.

Vísindamennirnir ítreka þó að þar sem rannsóknin hafi aðeins tekið til einstaklinga komu úr áhyggjufullum fjölskyldum sem ánafnað höfðu vísindamönnunum líkama leikmannanna að þeim gengnum, og því kunni breiðari rannsókn að gefa eitthvað öðru vísi niðurstöður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert