Hvetur múslima til að fara til Jerúsalem

Erdogan ávarpaði samflokksmenn sína á þinginu í dag og hvatti …
Erdogan ávarpaði samflokksmenn sína á þinginu í dag og hvatti alla múslima til að heimsækja Jerúsalem og standa vörð um borgina. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur hvatt alla múslima til að ferðast til Jerúsalem og vernda borgina. Ummælin lét forsetinn falla í kjölfar þess að til átaka kom þegar Ísraelsmenn settu upp málmleitarhlið við Musterishæðina.

„Héðan vil ég skora á alla múslima. Hver sá sem hefur tækifæri til ætti að heimsækja Jerúsalem, Al-Aqsa-moskuna,“ sagði Erdogan í Ankara. „Komum, stöndum öll vörð um Jerúsalem.“

Umrædd moska stendur á Musterishæðinni, sem múslimar kalla Haram al-Sharif. Svæðið er meðal helstu deilumála Ísraelsmanna og Palestínumanna.

Ísraelsk yfirvöld létu koma upp málmleitarhliðum við svæðið í kjölfar þess að tveir ísraelskir lögreglumenn létust þar í árás 14. júlí sl. Palestínumenn sáu aðgerðina hins vegar sem enn eitt dæmið um valdbeitingu Ísraelsmanna. 

Til átaka kom í kjölfar mótmæla.

„Þeir eru að freista þess að taka moskuna af múslimskum höndum undir þeim fyrirslætti að vera að berjast gegn hryðjuverkum,“ sagði Erdogan. „Það er engin önnur skýring á þessu.“

Hann sagði lögmæti aðgerða Ísraelsmanna byggja á þeirri virðingu sem þeir sýndu Palestínumönnum og réttindum þeirra.

Forsetinn fordæmdi á sama tíma árásir á bænahús gyðinga í Tyrklandi og sagði það ekki rétt viðbrögð við fréttum frá Jerúsalem. „Þetta er ekki í takt við trú okkar og er ekki leyfilegt,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert